Davíð Þór dæmir í máli Agnesar og Friðriks

Davíð Þór Björgvinsson fv. dómari við Mannréttindadómstól Evrópu verður meðal …
Davíð Þór Björgvinsson fv. dómari við Mannréttindadómstól Evrópu verður meðal dómara í sýndaréttarhöldunum. mbl.is/RAX

Lögfræðingafélag Íslands heldur í haust á slóðir síðustu aftökunnar á Íslandi og mun þar „endurupptaka“ mál þeirra Agnesar Magnúsdóttur, vinnukonu á Illugastöðum, og Friðriks Sigurðssonar frá Katadal, en frá þessu er greint á fréttavefnum Feyki.

Agnes og Friðrik voru dæmd til dauða og tekin af lífi við Þrístapa í Vatnsdalshólum 12. janúar 1830 fyrir að myrða þá Natan Ketilsson, bónda á Illugastöðum, og Pétur Jónsson vinnumann.

Eftir vettvangsferð á helstu sögustaði verður réttur settur í Félagsheimilinu á Hvammstanga þar sem lögmenn, saksóknari og dómarar munu fara yfir málið út frá fyrirliggjandi gögnum og dæma þau Agnesi og Friðrik upp á nýtt.

Saksóknari í málinu verður Sigríður Friðjónsdóttir ríkissaksóknari en verjendur verða hæstaréttarlögmennirnir Gestur Jónsson og Guðrún Sesselja Arnardóttir.

Dómarar hafa verið skipaðir: Davíð Þór Björgvinsson, fv. dómari við Mannréttindadómstól Evrópu, Ingibjörg Benediktsdóttir, fv. hæstaréttardómari, og Kolbrún Sævarsdóttir héraðsdómari.

Tekið er fram að um sýndarréttarhöld sé að ræða og ferðin fyrst og fremst farin til skemmtunar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert