Ekki tími til að hræðast á toppnum

John Snorri Sigurjónsson á toppi Lhotse.
John Snorri Sigurjónsson á toppi Lhotse.

„Þetta er ótrúlega góð tilfinning. Þetta gekk allt saman upp,“ segir John Snorri Sigurjónsson sem komst fyrstur Íslendinga á topp Lhotse-fjalls í vikunni sem er fjórði hæsti tindur heims, 8.516 metra hár. Hann var í sigurvímu þegar mbl.is spjallaði við hann í gegnum gervihnattasíma. Hann er nú í fyrstu grunnbúðunum þar sem hann tekur því rólega til morguns en í fyrramálið gengur hann niður í byggð þar sem kona hans og sonur bíða spennt eftir að hitta hann.

Ekki nóg með að John hafi verið fyrstur til að komast upp á topp fjallsins frá árinu 2013 heldur settu hann og sherpinn Tsering Pemba met í leiðinni. Því þeir klifu í einum rykk frá grunnbúðum 3 upp á topp og til baka á 23 klukkustundum og slepptu síðustu búðunum. Í ofanálag þurftu þeir að leggja línur og laga þær sem eru efst á tindinum til að komast alla leið. Hækkunin var 1.400 metrar. Afrekið hefur vakið mikla athygli í fjölmiðlum í Nepal því þetta hefur enginn gert áður. Sjá t.d. hér.  

Öflugur sherpi

„Við sáum þennan veðurglugga og ákváðum að láta á þetta reyna,“ segir John og bætir við: „Sherpinn sem var með mér er alveg rosalega öflugur.“

Ástæðan fyrir því að þeir þurftu að leggja línuna á toppnum er sú að árið 2016 dó sherpi sem var að laga línurnar.

Í sömu ferð með John upp á topp var írskur fjallagarpur og hann var fyrstur Íra til að toppa Lhotse. Á leiðinni niður stoppaði Írinn í grunnbúðum fjögur en John og sherpinn héldu áfram niður í þær þriðju. „Hann komst því miður ekki með okkur.“  

John Snorri og Írinn Cian O Brolchain með Tsering Pemba …
John Snorri og Írinn Cian O Brolchain með Tsering Pemba á milli sín.

Hafði ekki tíma til að hræðast 

„Það kom aldrei upp í hugann hræðsla. Maður hafði aldrei tíma til þess,“ segir hann aðspurður hvort hann hafi aldrei orðið hræddur því eins og gefur að skilja er ekki hættulaust að klífa fjórða hæsta tind heims.

Á þessum tímapunkti segir hann mikilvægt að hafa einbeitinguna í lagi því aðstæðurnar eru mjög krefjandi, klettar, gil og lausasnjór þar sem talsverð hætta er á snjóflóðum.

„Þarf að útiloka tilfinningarnar“

„Þetta er áskorun á sjálfan sig. Maður sigrast á sjálfum sér því þetta er líkamlega svo erfitt,“ segir John aðspurður hvað það er sem drífur fólk áfram til að klífa hæstu tinda heims. 

Aðstæðurnar eru vægast sagt krefjandi. Líkaminn er undir stöðugu álagi þegar verið er að klifra upp og í ofanálag er loftið mun þynnra og ekki eins mikið súrefni og líkaminn á að venjast. 

Það þarf að útiloka tilfinningarnar með því að reyna að hugsa ekki um þær, þótt líkaminn reyni að segja mér að koma niður og hætta þá má maður ekki láta undan þeim,“ segir John og hóstar lítillega inntur eftir því hvernig hægt er að keyra sig áfram upp á topp.

Hann segist vera við ótrúlega góða heilsu en glími við smá hósta eins og stendur. „Ég er búinn að missa fullt af kílóum. Ég er bólginn og aumur og vöðvarnir eru allir mjög stífir,“ segir hann hress í bragði.

  

Halda upp á afrekið í kvöld

John kom í fyrstu grunnbúðirnar í gær og dvelur þar í tvo daga. „Við ætlum að halda upp á þetta aðeins í kvöld áður en ég geng niður í fyrramálið,“ segir hann. Í miðju spjalli segir hann skyndilega: „Nei, vá. Nú er ég að horfa á svakalegt snjóflóð.“ Snjóflóðið féll í fjalli sem er í talsverðri fjarlægð og engin hætta stafar af því. Á þessum slóðum eru snjóflóð tíð. 

Við þetta bætir hann að stórt snjóflóð féll á milli grunnbúða eitt og tvö um miðja nótt nýverið. Hann var sjálfur kominn í grunnbúðir tvö. „Sem betur fer voru fáir á ferli á þessum tíma og enginn slasaðist,“ segir hann.

Einbeiting þarf að vera í lagi til að komast upp …
Einbeiting þarf að vera í lagi til að komast upp á topp hæstu fjalla heims.

Stefnir á K2 13. júní

„Ég er í sigurvímu og þakka öllum stuðninginn,“ segir hann og bendir á að allur ágóðinn af ferðinni rennur til LÍF styrktarfélags. John hefur misst báða foreldra sína úr krabbameini og því var styrktarfélagið LÍF fyrir valinu. 

Hann hlakkar til að hvíla sig og hitta fjölskyldu sína sem mun dvelja á þessum slóðum þar til förinni er heitið næst til Pakistan 13. júní. Hann er 43 ára og á konu sem er ólétt en samtals eiga þau fimm börn. 

Að ná á topp Lhot­se er liður í und­ir­bún­ingi Johns fyr­ir fjallið K2 sem hann stefn­ir á að klífa í sum­ar. K2 er erfiðasta fjall heims. Þangað er stefn­an tek­in 13. júní næst­kom­andi. Sú ferð verður kvikmynduð. Kvikmyndagerðamaðurinn Kári G. Schram vinn­ur að alþjóðlegri heim­ild­ar­mynd, Ferð til himna, um af­rek Johns á þann topp.

Hægt er að fylgj­ast með ferðum John Snorra á www.lifs­spor.is og á face­booksíðunni Lífs­spor K 2. 



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert