Eldur í báti úti fyrir Vopnafirði

Björgunarskip.
Björgunarskip. mynd/Landsbjörg

Björgunarskip Slysavarnafélagsins Landsbjargar á Vopnafirði var kallað út rétt fyrir klukkan átta í kvöld vegna elds í báti um 2,6 sjómílur utan við Vopnafjörð.

Einn skipverji var um borð og þurfti hann að yfirgefa bátinn og sjósetti því gúmmíbjörgunarbát. Búið er að ná manninum úr gúmmíbátnum og er hann kominn yfir í björgunarskipið.

Unnið er að því að ráða niðurlögum eldsins, samkvæmt upplýsingum frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg. 

Uppfært klukkan 21.18:

Skipverjinn sem var um borð í bátnum er brann utan við Vopnafjörð fyrr í kvöld er kominn í land með bát er var nærstaddur. Björgunarskip Slysavarnafélagsins Landsbjargar er að draga bátinn er brann til lands og má reikna með að þeir leggi að landi um tíuleytið í kvöld. Búið er að slökkva eldinn að mestu en báturinn er mjög illa farinn, jafnvel talinn ónýtur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert