Fasteignareigendum fækkar en fleiri vilja kaupa

Árið 2011 sögðust 55,45% aðspurðra telja óhagstætt að vera á …
Árið 2011 sögðust 55,45% aðspurðra telja óhagstætt að vera á leigumarkaði. Hlutfallið nú er komið upp í 92,7%. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Ný könnun Íbúðalánasjóðs sýnir að fasteignaeigendum á Íslandi fækkar hratt. Rúmlega 10% færri búa í eigin íbúð í dag en í desember 2008 þegar 77,6% svarenda í sambærilegri könnun sögðust búa í eigin húsnæði. Í október 2013 var hlutfallið komið niður 73,2% og í ár er fjöldi þeirra sem segjast eiga húsnæðið sem þeir búa í kominn niður í 70,1%. 

Í fréttatilkynningu frá Íbúðalánasjóði segir að þessi þróun virðist vera í ósamræmi við vilja meirihluta þeirra sem eru á húsnæðismarkaði. Árið 2011 sögðust 55,45% aðspurðra telja óhagstætt að vera á leigumarkaði. Hlutfallið nú er komið upp í 92,7%.

15% Íslendinga segjast þá hugleiða að kaupa fasteign á næstu 12 mánuðum og breytist hlutfall þeirra sem segjast vera í kauphugleiðingum lítið þegar litið er til eigna- eða skuldastöðu.

Bendir könnunin því til þess að fólk leggi áherslu á að komast inn á fasteignamarkaðinn þrátt fyrir verðhækkanir. „Vandséð er hvernig stór hluti þessa hóps muni geta keypt. Mikil kaupmáttaraukning og meiri sparnaður íslenskra heimila dugir ekki til þegar fólk vill eignast íbúð, þar sem methækkun þessara tveggja mælikvarða á velmegun fólks er þó sýnu minni en hækkun fasteignaverðs,“ segir í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert