Fyrirsjáanlegt tap fyrir blaðamenn

Ábyrgðarsjóður launa tryggir laun blaðamanna að hluta.
Ábyrgðarsjóður launa tryggir laun blaðamanna að hluta.

Enginn blaðamaður Fréttatímans hefur fengið greidd laun fyrir aprílmánuð. Út­gáfu­fé­lag Frétta­tím­ans, Morgundagur, er ekki enn komið í gjaldþrot, þrátt fyrir að ákvörðun um slíkt hafi verið tekin.  

Fimm blaðamenn fengu ekki greitt fyrir marsmánuð. Þeir blaðamenn sem þess óskuðu framseldu kröfur sínar til félagsins og gátu þá fengið lán frá félaginu að því marki sem krafan er tryggð í ábyrgðarsjóði í launa. 

„Það er algjörlega óviðunandi að fólk standi uppi launalaust allt í einu og fái ekki greidd laun sem það á lögmæta kröfu á,“ segir Hjálmar Jóns­son, formaður Blaðamanna­fé­lags Íslands, í sam­tali við mbl.is.

Hjálmar bendir á að Ábyrgðarsjóður launa tryggir ekki laun fólks nema að takmörkuðu leyti. Laun upp að 385 þúsund krónum á mánuði eru tryggð hjá sjóðnum. „Nánast allir eru á verulega hærri launum og fyrirsjáanlegt tap þeirra er umtalsvert,“ segir Hjálmar.

Síðasta tölu­blað Frétta­tím­ans kom út 7. apríl. Þá hafði hluti starfs­manna ekki enn fengið greidd laun fyr­ir mars­mánuð. Gunn­ar Smári Eg­ils­son, einn stærsti eig­and­inn, út­gef­andi og ann­ar rit­stjóri blaðsins, hafði þá stigið til hliðar og hætt af­skipt­um af út­gáf­unni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert