Börn ganga berserksgang í Langholtshverfi

Lögreglan hyggst ráðast í aðgerðir á næstunni vegna ítrekaðra skemmdarverka …
Lögreglan hyggst ráðast í aðgerðir á næstunni vegna ítrekaðra skemmdarverka barna og unglinga í hverfinu. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Ófremdarástand hefur verið í Langholtshverfinu síðustu vikur og mánuði þar sem hópur barna og unglinga hefur ítrekað gengið berserksgang, valdið töluverðu eignatjóni og jafnvel ráðist á jafnaldra sína. Lögreglan ætlar nú að taka málið föstum tökum og verður farið í sérstakar aðgerðir á næstunni til að sporna við frekari skemmdarverkum og ofbeldi.

Íbúar í hverfinu hafa mikið talað um þetta ófremdarástand á lokaðri Facebook-síðu og fjöldi útkalla hefur verið óvenjumikill, að sögn lögreglu.

„Það hefur verið mikið unglingavesen þarna upp á síðkastið. Við ætlum að funda um aðgerðir í þessu hverfi, í Laugardalnum og þar í kring, í fyrramálið og ganga svo í það af fullum þunga að stöðva þessa krakka. Þetta eru bara grunnskólakrakkar og unglingar, 14 og 15 ára, jafnvel yngri,“ segir Guðmundur Páll Jónsson, fulltrúi hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Skemmdarverk hafa meðal annars verið unnin í Húsdýragarðinum. Þá hafa ljósker ítrekað verið brotin við Langholtskirkju og staurar sparkaðir niður.

Aðspurður hvort Guðmundur telji að um sömu krakka sé að ræða og réðust á 14 ára dreng í hverfinu fyrir tæpum tveimur vikum, vill hann ekki fullyrða um það en drengurinn hyggst kæra árásina.

Aukin gæsla hefur verið í hverfinu upp á síðkastið og lögreglan er því fljót á vettvang ef eitthvað kemur upp. Það hefur hins vegar ekki dugað til að stöðva skemmdarvargana. „Við erum vel vakandi yfir þessu, það er búið að vera svo mikið vesen á krökkunum þarna. En við ætlum að svæfa þetta núna,“ segir Guðmundur sem býst við að gæsla verið aukin enn frekar í hverfinu og að rætt verði við foreldra þeirra krakka hverra lögreglan hefur haft hendur í hári.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert