Héðinn er enn efstur

Frá skák Héðins Steingrímssonar og Guðmundar Gíslasonar í kvöld.
Frá skák Héðins Steingrímssonar og Guðmundar Gíslasonar í kvöld. Ljósmynd/Aðsend

Héðinn Steingrímsson (2562) vann sigur á Guðmundi Gíslasyni (2336) í spennandi skák sem er rétt nýlokið á Íslandsmótinu í skák.

Guðmundur sem lengi hafði vonda stöðu sýndi útsjónarsemi í vörninni en svo fór að hann sá ekki við stórmeistaranum. Héðinn er efstur með 6½ vinning.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Skáksambandi Íslands.

„Guðmundur Kjartansson (2437) heldur sínu striki. Í dag vann hann Sigurbjörn Björnsson (2268) í þungri baráttuskák. Frammistaða Guðmundar er frábær og í venjulegu móti myndu 6 vinningar í sjö skákum þýða efsta sætið,“ segir í tilkynningunni.

„Dagur Ragnarsson (2320) vann Vigni Vatnar Stefánsson (2334) eftir ljótan afleik Vignis í heldur verri stöðu. Dagur er þriðji með 5 vinninga á sínu fyrsta Íslandsmóti. Framúrskarandi góð frammistaða. Fjölnispilturinn þarf nú hálfan vinning í tveimur síðustu umferðunum til að krækja sér í sinn fyrsta áfanga af alþjóðlegum meistaratitli.

Hannes Hlífar Stefánsson (2566), tólffaldur Íslandsmeistari, hefur ekki átt gott mót. Eftir langan slæman kafla vann hann loks í dag skák. Hann lagði að velli Bárð Örn Birkisson (2162). Davíð Kjartansson (2389) hefur verið að sækja í sig veðrið eftir slæma byrjun og hafði sigur á Birni Þorfinnssyni (2407).“

Ljósmynd/Aðsend.

Staðan:

1. Héðinn Steingrímsson (2562) 6½ v.

2. Guðmundur Kjartansson (2437) 6 v.

3. Dagur Ragnarsson (2320) 5 v.

4.-5. AM Björn Þorfinnsson (2407) og SM Hannes Hlífar Stefánsson (2566) 3½ v.

6.-7. FM Sigurbjörn Björnsson (2268) og FM Davíð Kjartansson (2389) 3 v.

8. Vignir Vatnar Stefánsson (2334) 2 v.

9. Guðmundur Gíslason (2336) 1½ v.

10. Bárður Örn Birkisson (2162) 1 v.

Áttunda og næstsíðasta umferð fer fram á morgun og hefst kl. 17. Þá teflir Héðinn við Sigurbjörn, Guðmundur Kjartansson mætir Birni og Dagur sest á móti Davíð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert