Ofurpotturinn heyrir sögunni til

Ofurpotturinn í Víkingalottóinu heyrir nú sögunni til, en samkvæmt sameiginlegri ákvörðun aðildarþjóða Víkingalottós hafa verið gerðar breytingar á Víkingalottóinu. Segir í fréttatilkynningu frá Íslenskri getspá að þetta sé gert til þess „að gera leikinn einfaldari og skemmtilegri“.

Áfram verða dregnar út sex aðaltölur af 48 en ofurtalan og bónustölurnar víkja fyrir svokallaðri Víkingatölu. Eru þær frá einum og upp í átta og er ein Víkingatala valin með hverri röð.

Fyrsti vinningur, fyrir sex réttar tölur og Víkingatölu, hækkar í grunninn með þessum breytingum og ætti að því er segir í tilkynningunni að ganga oftar út en áður.

Þá sé tryggt að fyrsti vinningur verði aldrei lægri en 3 milljónir evra, sem jafngildir um 340 milljónum króna.

Einnig verða tveir hæstu vinningsflokkarnir sameiginlegir milli landa í stað eins sameiginlegs vinningsflokks áður. Þá verður þak á fyrsta vinningi, sem virkar þannig að þegar vinningurinn er kominn í 35 milljónir evra (u.þ.b. 4 milljarða ISK) fer umframfjárhæðin í 2. vinningsflokk í næsta útdrætti.

Einnig verða nú veittir vinningar fyrir þrjár réttar tölur og þá hefur vinningshlutfallið verið hækkað úr 40% í 45% þannig að heildarfjárhæð vinninga ætti að hækka.

Verð á hverri röð hefur þá verið hækkað um 20 kr. og kostar röðin eftirleiðis 100 kr. hér á landi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert