Öll útköllin á sama tímanum í nótt

mbl.is/Eggert

Björgunarsveitir Slysavarnafélagsins Landsbjargar voru beðnar um að sinna nokkrum útköllum í nótt og svo merkilega vildi til að öll hófust þau á sömu stundu, eða klukkan hálffjögur, að því er segir í fréttatilkynningu frá Landsbjörg.

Björgunarsveitir á vestanverðu Suðurlandi voru kallaðar út vegna pars sem hafði ekki skilað sér úr göngu í Reykjadal ofan við Hveragerði. Fólkið fannst eftir frekar skamma stund heilt á húfi og var því fylgt til byggða.

Þá var Hjálparsveit skáta í Reykjavík kölluð út þar sem þakplötur á húsi í Úlfarsárdal voru að fjúka. Fljótt og vel gekk að fergja plöturnar.

Þá lét rokið einnig til sín taka á Selfossi þar sem Björgunarsveitin Árborg var kölluð út vegna trampólíns sem var að fjúka. Eftir að hafa komið trampólíninu í skjól og fest það niður héldu björgunarmenn heim í sæng, að því er segir í tilkynningu Landsbjargar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert