Réðust á mann fyrir að svína

mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Ráðist var á ökumann bifreiðar á gatnamótum á Grensásvegi í Reykjavík um klukkan hálfteitt síðustu nótt en árásarmennirnir munu hafa talið sig eiga sökótt við ökumanninn þar sem hann hefði að þeirra mati skömmu áður svínað fyrir þá á bifreið sinni.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni var tilkynnt að árásarmennirnir, sem voru á tveimur bifreiðum, hefðu verið vopnaðir en talið er að þeir hafi verið með kúbein. Þegar lögreglan kom á vettvang voru árásarmennirnir farnir á brott en fórnarlambið var á staðnum með áverka eftir árásina. Stöðvaði lögreglan ferð mannanna í kjölfarið á Breiðholtsbraut.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni var enginn handtekinn en málið er í rannsókn og nöfn árásarmannanna liggja fyrir. Þá kunna að vera til upptökur af árásinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert