Tilnefnd sem fyrirtæki ársins

Fulltrúar fyrirtækjanna voru í skýjunum.
Fulltrúar fyrirtækjanna voru í skýjunum. Ljósmynd/Aðsend

Fimmtán fyrirtæki eru tilnefnd sem fyrirtæki ársins en þau hafa verið valin samkvæmt niðurstöðum viðamikillar könnunar meðal þúsunda starfsmanna á vinnumarkaði.

VR hefur staðið fyrir þessari könnun í tvo áratugi en niðurstöður voru kynntar í móttöku í Hörpu í dag.

Fyrirtæki ársins árið 2017 í hópi fyrirtækja með 50 starfsmenn eða fleiri eru CCP, Johan Rönning, Nordic Visitor Iceland, S4S og TM Software.

Fyrirtæki ársins árið 2017 í hópi fyrirtækja með 20 – 49 starfsmenn eru Expectus, Fulltingi, Iceland Pro Travel, Kortaþjónustan og Margt smátt.

Fyrirtæki ársins árið 2017 í hópi fyrirtækja með færri en 20 starfsmenn eru Beiersdorf, Eirvík, Rafport, Sigurborg og Vinnuföt.

VR hefur tilnefnt fyrirtæki ársins árlega í tvo áratugi á grundvelli könnunar meðal félagsmanna sinna og fjölda annarra starfsmanna á almennum vinnumarkaði. Í ár er gerð sú breyting að fimm fyrirtæki eru tilnefnd sem fyrirtæki ársins í hverjum stærðarflokki en þeir eru þrír; fyrirtæki þar sem starfsmenn eru 50 eða fleiri, fyrirtæki þar sem starfsmenn eru 20 – 49 og fyrirtæki þar sem starfsmenn eru færri en 20 talsins.

Könnun VR mælir viðhorf starfsmanna til níu lykilþátta í innra umhverfi fyrirtækja. Þetta eru stjórnun, starfsandi, launakjör, vinnuskilyrði, sveigjanleiki í vinnu, sjálfstæði í starfi, ímynd fyrirtækis, ánægja og stolt og svo jafnrétti en síðastnefndi þátturinn kom nýr inn á síðasta ári. Jafnréttisþátturinn mælir ekki eingöngu jafnrétti út frá kyni heldur einnig aldri, uppruna, kynhneigð og trúar- og lífsskoðunum.

Valið á fyrirtæki ársins byggir á niðurstöðum úr samtals 60 spurningum í lykilflokkunum níu. Hæsta einkunn er fimm en sú lægsta er einn. Hver lykilþáttur fær þannig einkunn og mynda einkunnir allra þáttanna níu heildareinkunn fyrirtækis.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert