Tvöfalt fleiri greinast með HIV

Marktæk aukning varð á fjölda einstaklinga með HIV-sýkingu.
Marktæk aukning varð á fjölda einstaklinga með HIV-sýkingu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Á síðasta ári varð marktæk aukning á fjölda einstaklinga með HIV-sýkingu, lekanda og sárasótt, samkvæmt farsóttarskýrslu sóttvarnalæknis. 

Aukningin á lekanda og sárasótt varð einkum meðal karlmanna sem stunda kynlíf með körlum en aukningin á HIV skiptist jafnt á milli gagnkynhneigðra, sprautufíkla og karlmanna sem stunda kynlíf með körlum. Þessi þróun kallar á opinber viðbrögð sem hefjast munu á árinu 2017, segir í inngangi að farsóttarskýrslu.

86 lekandatilfelli greindust á árinu sem er nánast tvöföldun frá fyrri árum. Meðalaldur þeirra sem greindust á árinu 2016 var 24 ár (15–55 ár) hjá báðum kynjum, en karlar voru í miklum meirihluta. Skýrsluhöfundar telja að smit tengist samkynhneigð í yfir 70% tilfella. 

Á árinu 2016 greindust óvenjumargir einstaklingar með HIV-sýkingu eða 27 einstaklingar sem er meira en tvöfalt fleiri en á árunum 2014 og 2015. Af þeim sem voru sýktir voru 7 samkynhneigðir, 7 gagnkynhneigðir en 6 voru með sögu um sprautunotkun. 

Óvenjumargir, eða fjórir einstaklingar, greindust með alnæmi sem er lokastig sjúkdómsins. Að auki voru þrír einstaklingar með merki um langt genginn sjúkdóm. Það bendir til þess að HIV-smit fari lengi dult hjá mörgum einstaklingum, sem er áhyggjuefni, segir í skýrslunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert