CRI hefur óveruleg áhrif á umhverfið

Verksmiðja CRI í Svartsengi.
Verksmiðja CRI í Svartsengi. Ljósmynd/CRI

Skipulagsstofnun telur að metanólverksmiðju CRI í Svartsengi muni hafa óveruleg áhrif á umhverfið. Mestu skiptir að þannig hefur verið gengið frá niðurdælingu frárennslis frá starfseminni að ekki er líklegt að hún spilli ferskvatni.

Þetta kemur fram í álitsgerð sem stofnunin hefur lokið vegna verksmiðjunnar.

Í matsskýrslu kemur fram að í starfsemi CRI felist að nýta koldíoxíðútblástur frá orkuveri HS Orku. Gasið er hreinsað og látið hvarfast við vetni sem framleitt sé með rafgreiningu úr vatni. Afurðin, metanól, er nýtt sem eldsneyti.

CRI hefur starfrækt metanólverksmiðju í Svartsengi við Grindavík frá árinu 2011.  Fram kemur að á tilraunatímabili frá 2011 til2014 hafi framleiðslugetan verið fjögur tonn af metanóli á dag. Síðan hafi verið ákveðið að ráðast í stækkun verksmiðjunnar þannig að framleiðslugeta færi í 12 tonn á sólarhring.

„Í matsskýrslu hefur verið greint frá þeim hættum sem kunna að fylgja starfseminni og flutningi afurða og því svarað skilmerkilega til hvaða mótvægisaðgerða og viðbragðsáætlana er unnt að grípa ef eitthvað fer úrskeiðis. Framkvæmdin felur ekki í sér að brjóta þurfi óraskað land undir starfsemina og því eru áhrif á náttúrufar óveruleg,“ segir í álitsgerðinni.

„Mannvirki eru vel sýnileg en eru í næsta nágrenni við mannvirki orkuvers HS Orku í Svartsengi sem eru mun meiri að umfangi. Starfsemin felur í sér bindingu á koldíoxíði og að afurðin, metanól, verði notuð sem íblöndunarefni í eldsneyti í stað jarðefnaeldsneytis. Það markmið hefur augljóslega jákvæð áhrif á loftslag.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert