„Ég hafna þessu alfarið“

Ólafur Arnarson, formaður Neytendasamtakanna.
Ólafur Arnarson, formaður Neytendasamtakanna. mbl.is/Golli

„Ég hafna því alfarið að ákvarðanir sem ég hef tekið hafi veikt stöðu Neytendasamtakanna,“ segir Ólafur Arnarson, formaður Neytendasamtakanna, en stjórn samtakanna samþykkti vantraustsyfirlýsingu á formanninn á síðasta stjórnarfundi sem haldinn var 6. maí. Ólafur hefur gegnt embætti síðan í október.

Greint var frá málinu á vef DV, en Ólafur vill ekki tjá sig um það hvaða ákvarðanir stjórninni þóttu hafa veikt stöðu samtakanna, en segist hafna þeim ásökunum alfarið. Haft er eftir Stefáni Hrafni Jónssyni, stjórnarmanni, á DV að um sé að ræða ákvarðanir sem kosti peninga og hafi sett samtökin í þrönga stöðu.

„Ég held áfram“

Ólafur er kjörinn til ársins 2018, en hann hlaut yfirburðakosningu á þingi Neytendasamtakanna í október með 129 atkvæði af 232. Spurður hvort vantraustsyfirlýsingin muni hafa áhrif á setu hans í embætti neitar hann því alfarið. „Ég held áfram því ég hef skyldum að gegna gagnvart þingi neytendasamtakanna sem kaus mig með yfirburðakosningu. Ég er ekki að fara að hlaupast á brott og tek mínar skyldur mjög alvarlega.“

Ólafur segist ekki vilja tjá sig um það sem fram fer í stjórninni. „Þar er tekist á um mál eins og í öðrum stjórnum og alls ekki allir sammála um allt. En ég hef nú viljað halda því þannig að ráða úr málum innan stjórnarinnar en ekki í fjölmiðlum,“ segir hann. Þá bendir hann á að hann sæki umboð sitt ekki til stjórnar heldur til þings Neytendasamtakanna sem er æðsta vald samtakanna. „Ég hef skyldum að gegna gagnvart samtökunum og þinginu og hyggst rækja þær skyldur,“ segir hann.

Tekjuhliðin brothætt

Ólafur segir að frá aldamótum og þar til í fyrra hafi félögum í Neytendasamtökunum fækkað en í fyrra og það sem af er þessu ári hafi þeim fjölgað. Hann segir fjárhagslega stöðu samtakanna þó alltaf viðkvæma. „Tekjuhliðin er alltaf brothætt. Tekjurnar drógust saman eftir hrun og þá var félagsgjaldið fryst og við höfum aðeins verið að reyna að fikra það upp síðustu 2-3 árin. En til að gefa dæmi um fjárhagsstöðu samtakanna þá er í gildi þjónustusamningur við ríkið um neytendaaðstoðina. Sá þjónustusamningur árið 2001 hljóðaði upp á 7,2 milljónir á þess tíma verðlagi. Þetta jafngildir á verðlagi dagsins í dag svona 15,5 milljónum. Nú hefur umfangið aukist mjög og álagið á neytendaaðstoðinni en fjárhæðin á þessu ári er 3,7 milljónir. Það er um 1/5 á núvirði,“ segir hann.

Þá bætir hann við að hlutverk hans sem formanns sé annars vegar að gera Neytendasamtökin að öflugri rödd sem verði að hafa við borðið við allt sem snýr að hagsmunum neytenda og hins vegar að treysta fjárhagslegar stoðir samtakanna. „Það þarf að taka á tekjuhliðinni fyrst og fremst og auka tekjurnar. Það er í forgangi og verður að vera í forgangi og ég legg höfuðáherslu á það. Forgangsröðunin mín er að vinna í þágu samtakanna og þágu neytenda en ekki karpa um eitthvað sem á að afgreiða á stjórnarfundum.“

Loks segir hann að sér þyki miður að aðilar vilji reka svona umræðu í fjölmiðlum. „Okkur ber skylda til þess að vinna að hagsmunum neytenda og ég ætla að gera það.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert