„Þetta verður að leysa“

Sjúkraflutningamenn hafa frestað uppsögnum sínum um viku.
Sjúkraflutningamenn hafa frestað uppsögnum sínum um viku. mbl.is/Ómar

Fundur í kjaradeilu sjúkraflutningamanna hófst klukkan 11 í dag annan daginn í röð. Valdimar Leó Friðriksson, formaður samninganefndar Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna, vildi ekki tjá sig um gang viðræðnanna og sagði þær á viðkvæmu stigi.  

Sjö sjúkraflutningamenn starfa á Heilbrigðisstofnun Norðurlands (HSN) á Blönduósi. Sex þeirra, sem allir eru í hlutastarfi, sögðu upp í apríl og áttu uppsagnir þeirra að taka gildi í dag. Þeir hafa hins vegar frestað uppsögnunum um viku.

Íbúar haft áhyggjur

„Þetta verður að leysa. Þetta er neyðarþjónusta,“ segir Valgarður Hilmarsson, forseti bæjarstjórnar á Blönduósi. Hann segir samfélagið hafa haft verulegar áhyggjur af stöðunni og yfirvofandi uppsögnum því þetta sé neyðarþjónusta sem fólk verður að geta reitt sig á samstundis. Hann bendir jafnframt á að ef fólk veikist alvarlega þarf að keyra það til Akureyrar eða Reykjavíkur sem taki tíma og þá skiptir hver mínúta sköpum.  

„Það er algjörlega óásættanlegt að ríkið hafi ekki klárað að gera samninga við sjúkraflutningamenn,“ segir Valgarður. Kjöri og formi á ráðning­um hlutastarfandi sjúkraflutningamanna hefur ekki verið breytt þrátt fyr­ir bók­un þess efn­is í kjara­samn­ingi frá des­em­ber 2015.  

Valgarður segir stöðuna sem sjúkraflutningamenn í hlutastarfi hafa ekki einfalda. Þeir þurfa að vera á bakvakt og hafi ákveðnum skyldum að gegna gagnvart vinnuveitendum sínum sem þurfa gjarnan að koma til móts við þá. „Fólk þarf þá að fá greitt almennilega fyrir þetta.“

„Okkur hefur líka verið sagt að sjúkraflutningamenn sitji ekki allir við sama borð og séu ekki allir á sama taxta,“ segir Valgarður og vísar til ólíkra samninga sem sjúkraflutningamenn eru með við heilbrigðisstofnanir. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert