Farið verði yfir ábendingar í sumar

Hanna Katrín Friðriksson, þingflokksformaður Viðreisnar.
Hanna Katrín Friðriksson, þingflokksformaður Viðreisnar. mbl.is/Golli

„Það eru engar hugmyndir uppi um að hætta við þessa skattlagningu á þessu stigi. Það kemur fram í samhljóma áliti meirihluta fjárlaganefndar að við samþykkjum útgjaldarammann eins og hann er, sem var okkar verk, en bendum ennfremur á að það sé ástæða til þess að nota sumarið til þess að nýta fjölmargar ábendingar og skoða málið frekar.“

Þetta segir Hanna Katrín Friðriksson, þingflokksformaður Viðreisnar og 1. varaformaður fjárlaganefndar Alþingis, í samtali við mbl.is en vangaveltur hafa verið uppi um það hvort hugsanlega standi til að falla frá fyrirhugaðri hækkun virðisaukaskatts á ferðaþjónustuna og hvort farið sé að skoða leiðir eins og komugjöld á flugfarþega til landsins á nýjan leik.

Meðal annars sé verið að tala um að gerð verði töluleg greining í tengslum við hækkunina og að tíminn verði um leið notaður til þess að skoða málið betur. „Þannig að á þessu stigi er ekkert annað að segja en að við samþykkjum rammann og þennan tekju- og útgjaldaauka sem er ætlunin að fara í en hvetjum til þess að sumarið sé notað.“

Spurð hvort ástæða þyki til þess að skoða komugjöld sérstaklega segir Hanna Katrín að væntanlega verði hverjum steini velt við í þessum efnum. „En skilaboðin eru hins vegar alveg skýr. Fjármálaáætlunarramminn er samþykktur af okkar hálfu. Hafi menn síðan vel ígrundaðar tillögur þá verða þær bara teknar til greina geri ég ráð fyrir í sumar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert