Hlutfallslega mikil notkun geðlyfja

Ráðherra segir að lyfjagjöf byggist á faglegu mati lækna.
Ráðherra segir að lyfjagjöf byggist á faglegu mati lækna. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra telur að ekki sé hægt að fullyrða að notkun geðlyfja og svefnlyfja sé óhóflega mikil á hjúkrunarheimilum hér á landi. Þetta kemur fram í svari ráðherra við fyrirspurn Bjarkeyjar Olsen Gunnarsdóttur, þar sem hún spyr ráðherra um notkun geðlyfja og svefnlyfja á hjúkrunarheimilum.

Ráðherra segir að á hjúkrunarheimilum starfi fjölbreyttur hópur fólks og lyfin séu einungis gefin samkvæmt fyrirmælum lækna. Það byggist á faglegu mati þeirra en einnig er nauðsynlegt að fylgjast með áhrifum, gagnsemi og hugsanlegum aukaverkunum á hvern og einn eins og á við um öll lyf.

Óttarr Proppé, heilbrigðisráðherra.
Óttarr Proppé, heilbrigðisráðherra. mbl.is/Eggert

Aldraðir viðkvæmir fyrir aukaverkunum lyfja

Óttarr bendir á að mikil notkun viðkomandi lyfja umfram þarfir geti að sjálfsögðu haft neikvæð áhrif á þá sem taka þau. Ekki liggi fyrir gögn um áhrif mikillar notkunar umræddra lyfja á starfsfólk.

Aðspurður segir Óttarr að lyfin séu gefin í þeim tilgangi að bæta heilsu og líðan þeirra sem þau taka. „Hins vegar fylgja aukaverkanir flestum ef ekki öllum lyfjum og því er margs að gæta við notkun þeirra. Eins og áður er bent á eru ávallt öldrunarlæknar eða aðrir læknar sem ávísa þessum lyfjum sem og öðrum eftir að hafa metið þörfina fyrir þau en taka verður fram að í mörgum tilvikum hefst notkun umræddra lyfja áður en á hjúkrunarheimili er komið,“ bætir Óttarr við.

Hann segir ennfremur að aldraðir séu viðkvæmir fyrir aukaverkunum lyfja, svo sem slævandi áhrifum, truflunum á vitrænni getu, utanstrýtueinkennum og byltum. Upplýsingar sem liggi fyrir um geðlyfjanotkun aldraðra hér á landi sýna yfirleitt hlutfallslega mikla notkun samanborið við lyfjanotkun í nágrannalöndum okkar.

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður VG.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður VG. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Regluleg endurskoðun þarf að eiga sér stað

Bjarkey spyr ráðherra hvort úrbóta sé þörf við notkun lyfjanna á hjúkrunarheimilum og ef svo er, til hvaða ráðstafana hann hyggist grípa til að draga úr eða breyta notkuninni. „Regluleg endurskoðun þarf ávallt að eiga sér stað til að tryggja að besta þekking á hverjum tíma endurspeglist í viðmiðunum. Ráðherra telur að alltaf megi bæta verklag og tryggja þurfi reglubundna endurskoðun á gæðaviðmiðunum,“ segir í svari Óttars.

Ráðherra segir að keypt hafi verið lyf í þessum flokkum fyrir um 33.876 króna á íbúa árið 2015 og 24.318 króna á íbúa árið 2016. Sé gengið út frá því að notkun þessara lyfja sé sambærileg á öllum heimilum má gera ráð fyrir að öll hjúkrunar- og dvalarheimili sem hafi samtals um 2.670 íbúa hafi varið um 90 milljónum króna árið 2015 og um 65 milljónum króna árið 2016 til kaupa á geð- og svefnlyfjum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert