Léleg tónlist nauðsynleg

Simon Frith
Simon Frith

Simon Frith, sem er einhver áhrifamesti dægurtónlistarfræðingur heims, er á leið til landsins og heldur erindi í Veröld, húsi Vigdísar, á föstudaginn í næstu viku. Sykurmolarnir voru fyrsta íslenska hljómsveitin sem hann man eftir að hafa heyrt um.

Frith veit áreiðanlega meira um tónlist en flestir aðrir, hefur séð óteljandi hljómsveitir á sviði (þar á meðal hina goðsagnakenndu Doors) og vaknar þá sú spurning hver hafi verið fyrsti íslenski tónlistarmaðurinn eða hljómsveitin sem hann heyrði um.

„Ég er næstum því viss um að það hafi verið Sykurmolarnir, að minnsta kosti hvað dægurtónlist varðar. Mig grunar að ég hafi heyrt einhverja klassíska íslenska tónlist eða kvikmyndatónlist á undan því en ég er ekki alveg viss,“ segir hann og lýsir því hvernig hann upplifði þessa þekktu hljómsveit utan frá.

„Sykurmolarnir voru áhugaverðir því þeir voru hluti af indísenu sem var að spretta upp á þessum tíma, tónlist sem kom frá litlum sjálfstæðum útgáfufyrirtækjum. Þau voru auðvitað íslensk en á hinn bóginn var eitthvað kunnuglegt við þetta. Manni fannst þau vera mjög mikill hluti af þessari tónlistarsenu,“ segir hann en á þessum tíma var það ekki eitthvað séríslenskt sem einkenndi hljómsveitina umfram annað. „Það var ekki fyrr en Björk varð sólólistamaður sem tónlistin varð íslenskari,“ segir hann.

Mercury-verðlaunin

Frith hefur verið formaður dómnefndar hinna virtu Mercury-verðlauna frá stofnun þeirra árið 1992 og hefur vegna þeirra þurft að hlusta vandlega á hátt í þrjú hundruð plötur á ári. Eftir þá hlustun vinnur hann með félögum sínum í dómnefndinni í að búa til langan lista og að lokum svokallaðan stuttan lista. Loks er sigurvegari valinn en frá upphafi hafa m.a. Primal Scream, Pulp, Portishead, Ms. Dynamite og PJ Harvey unnið þessi verðlaun. „Þú verður að velja einhverja plötu sem þú getur sagt með sanni við fólk að það sé þess virði að hlusta á hana, plötu sem er ekki bara eftir þínum eigin smekk. Stundum hefur platan nú þegar notið vinsælda en það skiptir kannski ekki máli því það eru milljónir manna sem hafa ekki heyrt hana. Arctic Monkeys var til dæmis frekar augljós sigurvegari. Sveitin var með góðan aðdáendahóp en það höfðu ekki margir yfir 25 ára aldri hlustað á hana. Með verðlaununum sagði dómnefndin við fólk að það ætti að hlusta á plötuna þó að formið virkaði kunnuglegt. Textarnir eru magnaðir og það er svo miklu meira spunnið í þessa plötu en maður gæti haldið í fyrstu.“

Árið 2016 var síðasta árið sem Frith gegndi þessari stöðu en þá vann Skepta fyrir plötuna Konnichiwa.

Vandamálið við Spotify

Frith hefur m.a. rannsakað lélega tónlist sem mótvægi við góða tónlist og segir að það sé ekki síður mikilvægt að hlusta á lélega tónlist. „Það sem mér finnst svo slæmt við Spotify og svoleiðis þjónustur er að þú þarft aldrei að hlusta á eitthvað sem þér líkar illa við. Þegar ég var að alast upp þurfti maður að hlusta á allskonar tónlist í útvarpinu. Maður kvartaði yfir þessu en ég held það hafi verið gott að hlusta á eitthvað sem manni líkaði ekki við. Ef þú segir að eitthvað sé gott er það markleysa nema þú hafir eitthvað á móti sem þú getur sagt að sé ekki gott. Ef þér finnst allt gott, þá er engin þörf á þessu orði. Þú verður að aðgreina hið góða frá hinu og getur bara sagt að eitthvað sé gott í samhengi við eitthvað annað.“

Algjört rusl eða argasta snilld?

Fyrirlestur Frith ber nafnið „Algjört rusl eða argasta snilld?: Um gildi popptónlistarinnar“. Í fyrirlestrinum mun Frith fara yfir sögu sína sem dægurtónlistarfræðings en sá ferill spannar nú tæplega fimmtíu ár. Fyrirlesturinn fer fram í Veröld, húsi Vigdísar, föstudaginn 26. maí og hefst klukkan 12.00. Eftir fyrirlesturinn verður gestum boðið í móttöku þar sem hægt verður að ræða við Frith í návígi.


Þetta er brot úr viðtali sem birtist við Frith í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina.

Arctic Monkeys með Mercury-verðlaun.
Arctic Monkeys með Mercury-verðlaun.
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert