Ljúfir Bartónar óma víða

Kórinn hóf göngu sína á Kaffibarnum og hefur notið vinsælda …
Kórinn hóf göngu sína á Kaffibarnum og hefur notið vinsælda síðan. Þar eru æfingar einu sinni í viku. mbl.is/Kristinn Magnússon

Karlakórinn Bartónar hefur notið sívaxandi vinsælda síðustu ár. Kórinn var stofnaður árið 2010 og hefur síðan þá komið fram á fjölda skemmtana víða um land, meðal annars á Menningarnótt og Iceland Airwaves, auk þess að koma fram á árlegri sumarhátíð Kaffibarsins, HumarSumar.

Lúðvík Snær Hermannsson, fjölmiðlafulltrúi kórsins og einn af stofnendum hans, sagði í samtali við Morgunblaðið að kórinn hefði upphaflega verið stofnaður sem einskonar grínatriði á áðurnefndri sumarhátíð Kaffibarsins. „Við vorum nýbúnir að sjá auglýsingu frá fyrirtækinu Puma í sjónvarpinu, þar sem breskar fótboltabullur voru að syngja á bar. Okkur fannst þeir nú ekki syngja neitt svakalega vel, við gætum eflaust gert þetta betur. Svo sungum við á þessari sumarhátíð og fólki fannst það meira fyndið heldur en flott,“ segir Lúðvík.

Áhersla lögð á gæðin

Fljótlega sáu kórfélagar fram á að þetta væri eitthvað sem þeim hugnaðist vel að gera, hittast á barnum og syngja saman. „Það var nú samt aðallega til að við hefðum afsökun til að komast á barinn í miðri viku,“ segir Lúðvík og hlær. Kórmönnum fjölgaði ört og margir þóttu hafa góða söngrödd. Í upphafi voru kórmeðlimir aðeins í kringum 14 talsins en eru nú hátt í 40. Við það hafi áherslan á gæði söngsins orðið meiri og síðan þá hafa Bartónar vaxið og dafnað. Kórmeðlimir hittast á hverjum mánudegi á Kaffibarnum til þess að syngja saman.

Að sögn Lúðvíks hefur fólk tekið vel í þetta uppátæki en kórinn hefur undanfarið sungið með þekktu tónlistarfólki, bæði íslensku og erlendu og má þar nefna söngvarana Damien Rice, McGauta og fleiri. Í næstu viku er svo komið að fyrstu utanlandsferð kórsins, þegar meðlimir leggja land undir fót og halda til London 25. maí næstkomandi. Þar mun kórinn koma fram á tónlistarhátíðinni Courtyard, ásamt bresku hljómsveitinni Throws, en Bartónar sungu á nýjustu plötu hljómsveitarinnar.

Bartónar munu halda brottfarartónleika í Gamla bíói kl. 20 hinn 23. maí næstkomandi.

„Við syngjum ekki oft á svona stórum stöðum eins og í Gamla bíói, nema þegar við syngjum á árlegum jólatónleikum með kvennakórnum Kötlunum. Svo þetta verða flottir tónleikar, það verður ákveðin barstemning ríkjandi,“ segir Lúðvík að lokum.

Hittast á barnum til að syngja

Bartónar hafa komið fram á fjölda skemmtana og tónlistarhátíða, til að mynda Ljósanótt í Reykjanesbæ og á þjóðhátíðartónleikum í Reykjavík 17. júní. Kórinn hefur einnig komið fram við önnur tækifæri, en 13. janúar árið 2012 sungu þeir þjóðsöng Íslands fyrir landsleik Íslands og Finnlands í Laugardalshöll.

Þá hafa þeir tekið þátt í auglýsingu fyrir N1, kynningarátaki jólabjórsins hjá Vífilfelli og mörgu fleira. Kórmeðlimir koma úr ýmsum áttum, en allir eiga þeir það sameiginlegt að hafa unun af því að hittast yfir góðum bjór og syngja saman. Hægt er að bóka Bartóna til þess að syngja á árshátíðum og í veislum, en kórinn hefur verið vinsæll við ýmis tilefni. Allt snýst þetta um að syngja og skemmta sér. Stjórnandi kórsins er Jón Svavar Jósepsson.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert