Reykjavíkurþing Varðar í beinni

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fyrsta Reykjavíkurþing Varðar, fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík, hefst í dag klukkan 17:00 og verður streymt beint frá setningarræðu Bjarna Benediktssonar, forsætisráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins, hér á mbl.is.

Einnig verður stryemt frá ræðum Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur, ritara flokksins, Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherra og Halldórs Halldórssonar, oddvita borgarstjórnarhóps sjálfstæðismanna.

Fram kemur í fréttatilkynningu að Reykjavíkurþingið veiti grasrót Sjálfstæðisflokksins tækfæri til að koma að stefnumótun Varðar í borgarmálum og eiga um leið stefnumót við kjörna fulltrúa flokksins í Reykjavík. Starfið fari að mestu fram í málefnanefndum.

Þetta er sem fyrr segir í fyrsta sinn sem Reykjavíkurþing er haldið en það fer fram í höfuðstöðvum Sjálfstæðisflokksins í Valhöll. Um stefnumótandi málefnaþing er að ræða þar sem mótuð verður framtíðarsýn í sex mismunandi málaflokkum sem endurspegla svið Reykjavíkurborgar; íþrótta- og tómstundanefnd, menningar- og ferðamálanefnd, skóla- og frístundanefnd, umhverfis- og skipulagsnefnd, velferðarnefnd og fjármálanefnd.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert