„Time-lapse“-myndband af sviðsetningu Rammstein-tónleika

Tilkomumikil sviðsmyndagerð fyrir Rammstein-tónleikana hófst í Kórnum í Kópavogi í gær. „Time-lapse“-myndband náðist af grunnsmíðinni. Tónleikarnir verða haldnir annað kvöld.

Um 16 þúsund Íslendingar bíða spenntir eftir tónleikunum en tónleikamiðarnir ruku út og urðu fljótt uppseldir. Þýska rokkhljómsveitin Rammstein hefur áður troðið upp á Íslandi og hélt tvenna minnisstæða tónleika hér á landi árið 2001. Tónleikarnir nutu mikilla vinsælda.

Búist er við mikilli umferð í nágrenni Kórsins í kjölfar tónleikanna og hefur Kópavogsbær gefið út tilkynningu um umferðatakmarkanir frá klukkan 18 á tónleikadeginum, við opnun Kórsins.    

Umferð í Kópavogi verður tálmuð um helgina.
Umferð í Kópavogi verður tálmuð um helgina. Kort/Kópavogsbær

Í tilkynningu Kópavogsbæjar kemur fram kort þar sem sjá má hvar umferðin verður takmörkuð. Íbúum tiltekinna gatna í Kórahverfinu verður sendur sérstakur umferðarpassi til að auðvelda þeim að komast leiðar sinnar meðan á tónleikum stendur.

Kópavogsbær hvetur tónleikagesti jafnframt til að notast ekki við einkabifreiðar heldur nýta sér frekar aðrar samgöngur. Fríum ferðum fyrir tónleikagesti verður komið á frá Smáralind frá klukkan 18.

Tónleikarnir hefjast kl. 19.30 með hljómsveitinni Ham sem hitar upp. Rammstein spilar frá klukkan 21 til 22:30. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert