Langri eftirför lauk með árekstri

Lögreglumenn slösuðust í árekstrinum.
Lögreglumenn slösuðust í árekstrinum. mbl.is/Þórður

Skömmu fyrir miðnætti urðu lögreglumenn hjá lögreglunni á Suðurlandi við almennt umferðareftirlit varir við bifreið sem var ekið norður Þingvallaveg við Steingrímsstöð og hugðust kanna með ástand ökumanns og bifreiðar.

Þegar ökumanni var gefið merki um að stöðva aksturinn jók hann hins vegar hraðann og neitaði að stöðva akstur bifreiðarinnar og hófu lögreglumenn eftirför eftir bifreiðinni, að því er kemur fram á Facebook-síðu lögreglunnar. 

Eftirförin stóð óslitið frá Þingvallavegi, gegnum þjóðgarðinn á Þingvöllum og inn á Kjósaskarðsveg. Settur var upp lokunarpóstur á Kjósaskarðsvegi við Hvalfjarðarveg og er ökumaður varð þess var stöðvaði hann bifreiðina og bakkaði svo á mikilli ferð framan á lögreglubifreiðina sem hafði veitti honum eftirför. Lögreglubifreiðin var nánast kyrrstæð þegar áreksturinn varð.

Ökumaður bifreiðarinnar slapp óslasaður frá árekstrinum en lögreglumenn hlutu minni háttar áverka. Lögreglubifreiðin er að öllum líkindum ónýt eftir áreksturinn. Ökumaðurinn er grunaður um akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna.

Lögreglan á Suðurlandi naut aðstoðar fjarskiptamiðstöðvar ríkislögreglustjóra, sérsveitar ríkislögreglustjóra, lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og lögreglunnar á Vesturlandi við aðgerðina.

Ók á 140 km hraða

Lögreglan á Suðurlandi segir í samtali við mbl.is að eftirförin hafi tekið rúman hálftíma og ók ökumaðurinn á um 140 kílómetra hraða á klukkustund.  

Lögreglumennirnir fóru til skoðunar hjá lækni á lögreglustöðinni og fengu þeir smáskurði á höndum og fótum en líknarbelgur sprakk í bílnum við áreksturinn.

Ökumaðurinn, sem hefur ekki komið áður við sögu lögreglunnar á Suðurlandi, var fluttur í fangageymslu í Reykjavík og verður hann yfirheyrður í dag vegna málsins.

Tveir bílar frá lögreglunni komu að eftirförinni með beinum hætti, að sögn lögreglunnar. Einn frá lögreglunni á Suðurlandi sem var í eftirförinni og annar frá sérsveit ríkislögreglustjóra sem sá um svokallaðan lokunarpóst.

Annar bíll til viðbótar frá lögreglustöð á höfuðborgarsvæðinu sá svo um að flytja ökumanninn til Reykjavíkur.



mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert