19,6 stiga hiti á Húsafelli

Það viðrar vel í Húsafelli en þar er tæplega 20 …
Það viðrar vel í Húsafelli en þar er tæplega 20 stiga hiti. Mynd/Unnar Bergþórsson

Hitatölur á landinu halda áfram að hækka jafnt og þétt og ná líklega 20 stigum víða um land. Á Húsafelli er hitinn kominn í 19,6 stig og á Þingvöllum er 19,1 stig og í Ásbyrgi eru 18,8 stig. Það er því um að gera að fara út og njóta dagsins því veðrið er gott og spáin ekki eins góð á morgun.

„Það verður hlýjast í innsveitum. Ef fólk vill komast í meiri hita verður það að fara inn til landsins. Vonandi verður hlýrra í Reykjavík í dag en í gær. Austanáttin ætti að halda kaldri hafgolu frá,“ segir Helga Ívarsdóttir, veðurfræðingur Veðurstofu Íslands. 

Hlýjast verður í innsveitum fyrir norðan, vestan og líklega á öllu Vesturlandi. Svalara verður meðfram ströndinni við sjóinn. Minnstur hiti á landinu í dag verður á Austfjörðum og Suðausturlandi. Þar gæti þykknað upp þegar líður á daginn.

Hins vegar er spáin einnig fín fyrir morgundaginn. Háskýjað og ágætishitatölur og gæti mest farið í 18 stig. Spáð er rigningu á Suðurlandi. 

Veðurvefur mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert