Áhugavert fjallafólk í Ladakh í Kasmír

Einangraðir íbúar Ladekh-hérðas hafa varðveitt búddatrú og búddíska menningu.
Einangraðir íbúar Ladekh-hérðas hafa varðveitt búddatrú og búddíska menningu. Morgunblaðið/Helgi Bjarnason

Litlum hópi áhugaljósmyndara var hvarvetna vel tekið í Ladakh-héraði. Íbúar sveitaþorpanna opnuðu heimili sín, ef þess var óskað, eða ræddu við gestina í garðinum. Allstaðar var boðið upp á kaffi eða te og kruðerí. Mikil ró og friður er yfir mannlífinu. Menn eru ekkert að flýta sér.

Ferðin um þennan litla hluta af Kasmír var liður í ljósmyndaferð sem ferðaskrifstofan Farvel skipulagði um Indland í samvinnu við Þorkel Þorkelsson ljósmyndara sem var fararstjóri.

Fáir ferðamenn

„Mér fannst áhugavert að koma til Kasmír. Skynjaði að þar er ekki sama flæði af ferðafólki og víða annars staðar og ferðamennskan annars konar. Þangað kemur fólk af trúarástæðum og jafnvel vegna frægrar Bollywood-myndar sem þar var nýlega tekin. Útlendingar fara ekki mikið til Ladakh á þessum tíma árs, vegna kuldans, og mér finnst það kostur,“ segir Þorkell.

Hann segir að þetta skapi aðstæður til að komast nær fólkinu og lífinu sem það lifir. „Mér fannst sveitaþorpin áhugaverð. Það var eins og að koma út í sveit á Íslandi í gamla daga. Þegar komið var í hlað komu allir út til að heilsa manni,“ segir Þorkell.

„Ég hefði ekki viljað sleppa þessum hluta ferðarinnar. Þetta var mikil upplifun, eiginlega fjarstæðukennt og í mikilli mótsögn við suðurhluta Indlands,“ segir Þóra Björk Schram sem tók þátt í ferðinni. Hún hafði áður ferðast um syðsta hluta Indlands og í þessari ferð kynntist hún norðurhlutanum.

Um páskana var enn kalt í Kasmír, það hékk við að vera frostlaust á daginn en frost á nóttuni, en menn fundu að vorið var að nálgast. Aðstæður geta verið erfiðar fyrir gesti þar sem ekki er venja að kynda mikið upp húsakynnin á þessum tíma árs og því síður hópferðabílana. Snjór var í fjöllum og lítið farið að sjást í græn strá á láglendi. Mikil breyting fannst þegar aftur var snúið niður úr fjöllunum, til borganna í norðurhluta Indlands. Það var eins og að fara úr svarthvítri mynd yfir í litmynd. Og hitamunurinn var 45 stig. Þeirri breytingu verður að líkja við skell.

Drengir úr klausturskólanum í Lamayuru koma í hádegismat.
Drengir úr klausturskólanum í Lamayuru koma í hádegismat. Morgunblaðið/Helgi Bjarnason

Deilt um yfirráðin

Þrjú héruð úr gamla konungsríkinu sem kennt var við Kasmír eru undir yfirráðum Indverja: Jammu, Kasmír-dalur og Ladakh. Aðrir hlutar þess eru undir yfirráðum Pakistana og Kínverja. Deilur Indverja og Pakistana um yfirráðin í Kasmír eru jafngamlar ríkjunum sem stofnuð voru fyrir 70 árum. Þjóðirnar hafa háð tvö stríð um landshlutann eftir árið 1947. Þá hefur kínverski herinn ráðist inn í Ladakh.

Þótt nú ríki ógnarjafnvægi þessarra nágrannaríkja sem öll búa yfir kjarnorkuvopnum er undirliggjandi ólga og óánægja með stöðu mála. Það á sérstaklega við um hluta múslimasamfélaganna í Indlandi, sérstaklega íbúa þorpa sem næst eru landamærum Pakistans. Brýst það reglulega út í mótmælum og vopnuðum skærum og hryðjuverkum. Ferðabókahöfundar ráða ferðafólki frá því að heimsækja ákveðin svæði í Kasmír. Allavega er ráðlegt að kanna stöðuna á þeim stöðum sem fólk hugsar sér að sækja heim.

Ljósmyndahópurinn fór eingöngu til Ladakh-héraðs sem er í austurhluta Kasmír. Enginn upplifði ógn vegna deilna ríkjanna. Hins vegar er vígbúnaður alls staðar nálægur, indverskar herstöðvar og herflugvellir og mikil öryggisgæsla á flugvellinum í Leh. Þá eru ákveðin svæði lokuð fyrir almennri umferð eða fólk þarf að sýna fram á að það eigi erindi þar um.

Bændur í Khaltsi plæjga akur á bökkum Indusár.
Bændur í Khaltsi plæjga akur á bökkum Indusár. Morgunblaðið/Helgi Bjarnason

Búddísk menning hefur haldið velli

Leh er höfuðstaðurinn í Ladakh. Hann er á hásléttu í Himalajafjallgarðinum, í 3500 til 3600 metra hæð yfir sjávarmáli, umgirtur háum fjöllum. Flugið er eina samgönguleiðin 7-8 mánuði á ári. Héraðið er mjög strjálbýlt enda byggðin í þessari miklu hæð og jafnvel hærra. Vegna hæðarinnar er gestum ráðlagt að taka því rólega fyrst eftir að lent er í Leh. Einnig er hægt að slá á háfjallaveikina með lyfjum.

Leh var fram á miðja síðustu öld miðstöð verslunar og flutninga á milli Punjab og Mið-Asíu, einnig Kasmír og Tíbets. Þess sjást merki í skipulagi borgarinnar. Aðalverslunargatan á gamla markaðnum var höfð tiltölulega breið þannig að þar gætu flutningalestirnar athafnað sig. Á gangstéttum, fyrir framan verslanirnar, sitja konur úr nágrannaþorpum og selja kartöflur og grænmeti.

Íbúar héraðsins eru greinilega af allt öðrum uppruna en Indverjar enda rekja þeir ættir sínar til Tíbets og Mið-Asíu.

Í þessu einangraða héraði hefur búddisminn haldist og búddísk menning varðveist. Þess sjást víða merki. Bænaflögg eru á flestum íbúðarhúsum og forn og ný klaustur og hof standa hátt í fjallshlíðum eða á tindum hvert sem litið er. Gömlu Búddahofin eru raunar aðalaðdráttarafl flestra ferðamanna sem þangað fara. Þeir koma gjarnan frá löndum þar sem búddatrú hefur fótfestu.

Vill fara aftur

„Mér finnst þetta svæði svo áhugavert að ég reikna með að fara aftur og rannsaka það betur og öðruvísi,“ segir Þorkell Þorkelsson og heldur áfram: „Ég myndi reyna að þefa uppi minni þorp sem liggja hátt og reyna að fá að dvelja eina eða tvær nætur í heimagistingu á hverjum stað. Með því fær maður allt aðra nánd, er nánast orðinn hluti af samfélaginu.“

Konurnar í Kasmír vinna oft erfiðustu störfin.
Konurnar í Kasmír vinna oft erfiðustu störfin. Morgunblaðið/Helgi Bjarnason
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert