Eftirlit í Langholtshverfi aukið gífurlega

Lögreglueftirlit hefur verið verulega hert í Langholtshverfi.
Lögreglueftirlit hefur verið verulega hert í Langholtshverfi. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Lögreglueftirlit í Langholtshverfi og á svæðinu í kringum Laugardal hefur verið hert gríðarlega mikið síðustu daga og verður því haldið áfram. Ófremdarástand hefur verið í hverfinu síðustu vikur og mánuði þar sem hóp­ur barna og ung­linga hef­ur ít­rekað gengið ber­serks­gang, valdið tölu­verðu eigna­tjóni og jafn­vel ráðist á jafn­aldra sína.

Lögreglu hefur ekki borist kæra frá 14 ára dreng sem ráðist var á af hópi unglinga í hverfinu síðustu helgi eins og greint var frá á mbl.is.

Í samtali við mbl.is segir Guðmund­ur Páll Jóns­son, full­trúi hjá lög­regl­unni á höfuðborg­ar­svæðinu að búið sé að auka eftirlit í hverfinu. „Við vorum með nokkra einkennisklædda lögreglumenn í hverfinu í gær á reiðhjólum sem höfðu afskipti af nokkrum unglingum. Til að mynda voru nokkrir tveir og þrír á vespum sem má náttúrulega ekki,“ segir Guðmundur og bætir við að einnig hafi lögreglumennirnir haft afskipti af hópamyndun unglinga í hverfinu.

Ekkert hafi verið um skemmdarverk eins og síðustu vikur og segir hann að eflaust spili þetta aukna eftirlit inn í með það. „Við erum náttúrulega búin að herða eftirlitið gífurlega mikið núna og ætlum að halda því áfram.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert