Skothelda vestið staðalbúnaður hjá Unu

Una með öryggissveitinni í fjallgöngunni. Hún segir því hafa fylgt …
Una með öryggissveitinni í fjallgöngunni. Hún segir því hafa fylgt kærkomin frelsistilfinning að horfa yfir snævi þakktan Kabúl-dalinn. Ljósmynd/Una Sighvatsdóttir

Unu Sighvatsdóttur fjölmiðlakonu hafði dreymt um að ná sér í starfsreynslu erlendis frá því hún var enn í skóla. Það hvarflaði hins vegar aldrei að henni að þá reynslu myndi hún verða sér út um í stríðshrjáðu landi á borð við Afganistan. Hún vissi hins vegar um leið og þetta var orðað við hana að þessu boði myndi hún ekki hafna.

Út fór hún um miðjan desembermánuð og segist aldrei hafa upplifað sig í jafnókunnugum aðstæðum og fyrstu vikurnar í Kabúl. „Ég er mikil útivistarmanneskja og finnst best að líkja þessu við að vera í fjallgöngu heima á Íslandi, eða að keyra í íslensku vetrarverði. Þar veit ég alveg út í hvað ég er að fara og treysti mér vel til að lesa í aðstæður og vita til dæmis hvenær rétt er að snúa við. Þegar ég kom hingað hins vegar var ég svolítið eins og blindur kettlingur, mig skorti alla reynslu af svona aðstæðum til að geta reitt mig alfarið á eigin dómgreind,“ segir Una. Undanfarna mánuði hefur hún verið ötul við að viða þessari þekkingu og reynslu að sér og er orðin nokkuð sjóuð. „Ég finn að ég get metið og skilið aðstæður miklu betur nú en ég gerði á fyrsta degi.“

Una með börnum í Herat-fangelsinu, sem er stærsta kvennafangelsi Afganistan. …
Una með börnum í Herat-fangelsinu, sem er stærsta kvennafangelsi Afganistan. Það er rekið með stuðningi Ítala og kvenfangarnir eru þar margir fyrir s.k. „siðferðisglæpi“ og hefur mörgum fyrir vikið verið hafnað af fjölskyldum sínum. Þær eru því einstæðar mæður og hafa börnin sín með sér í fangelsið. Börnin ganga samt í skóla á daginn en eru hjá mæðrum sínum á nóttunni. Ljósmynd/Kay Nissen

Skothelt vesti og hjálmur er staðalbúnaður ef hún fer svo mikið sem eitt skref út fyrir múra herstöðvarinnar. „Mér er einfaldlega ekki hleypt út um hliðið án þessa,“ segir Una. „Ég fékk þetta afhent frá danska hernum um leið og ég lenti í Kabúl.“ 

Komin upp á lagið með að sofa í þyrlu

Þungur bakpoki með myndavél, þrífæti og öðrum græjum er líka hluti af vinnubúnaðinum á ferðalögum hennar um Afganistan. „Maður er að henda þessu með sér þegar maður er að stökkva upp í þyrlu og það er alveg ótrúlegt hvað aðlögunarhæfnin gagnvart einhverju sem var mjög framandi fyrir stuttu getur verið mikil.“ Hún hlær við og kveðst vera komin ágætlega upp á lagið með að sofa um borð í C-130 Herkúles-vélum, fjögurra hreyfla skrúfuþotum sem minna mest á gripaflutningavélar. „Þá kemur sér vel að vera í skothelda vestinu, því ég næ svo góðri höfuðstöðu í því fyrir blundinn.“

Í kringum 2.300 manns frá 39 ríkum dvelja í herstöð NATO í Kabúl, sem er ekki víðfeðm að ummáli. „Ef maður hleypur hérna einn hring meðfram múrunum er það rétt rúmur kílómetri.  Þetta er eins ólíkt aðstæðum á Íslandi og verið getur,“ segir Una og kveður herstöðina í Kabúl vera framandi vinnuumhverfi fyrir þann sem komi frá herlausu ríki.

Una með hjálminn og í skothelda vestinu á leið aftur …
Una með hjálminn og í skothelda vestinu á leið aftur til Kabúl eftir vikulanga vinnuferð í Helmand-héraði. Hún situr þarna í Chinook-flutningaþyrlu frá Bandaríkjaher, sem er flogið með afturendann galopinn, og er því að horfa beint út yfir sveitir Afganistan. Ljósmynd/Kay Nissen

Líkt og aðrir sem þar búa, býr Una í húsnæði sem sett er saman úr einingagámum. „Ég bý í þriggja hæða einingagámi, sem er klæddur að utan með múrsteinum þannig að húsið er huggulegt á að líta að utan. Ég bý þar í herbergi sem ég deili með konu sem er major í ástralska hernum, því það er tvímennt hér í flest herbergi til að nýta plássið sem best.“

Fyrir þann sem er vanur rúmum húsakynnum eru viðbrigðin töluverð, en Una býr vel að því að hafa tekið hluta háskólanáms síns í bandarískum háskóla og þurft að þeirra landa sið að deila herbergi á háskólagarði. „Ég bjóst ekki við að vera í þeim aðstæðum aftur, en það að vera á herstöðinni er að sumu leytið alveg lygilega líkt því að vera á háskólagarði,“ segir hún.

Kitlar að sjá myndefni sitt á CNN

Sem upplýsingafulltrúi fær Una fleiri tækifæri til að ferðast um Afganistan, en flestir þeir sem dvelja í herstöðinni. „Ef maður ferðast á jörðu niðri er farið í bílalest og allt ferðaskipulag er mjög þungt í vöfum. Það þarf að minnsta kosti sólarhringsfyrirvara til að skipuleggja allar ferðir,“ segir hún og viðurkennir að fyrir hvatvísan Íslending geti það alveg tekið á andlegu hliðina.

Norðurlandaþjóðirnar reka sameiginlegt sæluhús, eins konar félagsmiðstöð í Kabúl, sem …
Norðurlandaþjóðirnar reka sameiginlegt sæluhús, eins konar félagsmiðstöð í Kabúl, sem kölluð er Nordic Palace. Þar héldu norrænu starfsmennirnir jólin saman. Á myndinni eru Una og danski hershöfðinginn Torben Møller að útdeila möndlugraut í eftirrétt á aðfangadagskvöld. Ljósmynd/Una Sighvatsdóttir

Una framleiðir myndefni sem sýnir hvað NATO er að gera í Afganistan. Hún segir það oft gleymast að NATO sé ekki lengur í hernaði í landinu, þó að Bandaríkin séu það. Hlutverk NATO núna er að veita afganska hernum og stjórnvöldum þjálfun og ráðgjöf. Það kemur fyrir að myndefni Unu er birt með fréttum alþjóðlegra fjölmiðla og segir hún það óneitanlega kitla að sjá myndefni sitt notað á sjónvarpsstöðvum á borð við CNN.

Myndefni sem Una hefur unnið fyrir NATO

Þyrluferðalög eru fastur þáttur í starfi hennar þarna úti. „Mér finnst alltaf alveg rosalega gaman í þyrlu. Það breytist ekkert þó að ég sé mikið á flugi hérna,“ segir Una og bætir við að flestar ferðanna séu þó á milli herstöðva NATO í Afganistan. 

Mikil fátækt og skortur á innviðum

Úr lofti sér hún líka vel hversu stórt og víðfeðmt land Afganistan er. „Þetta er svo falleg náttúra og fjöllinn, sem eru erfið yfirferðar, minna mann mikið á Ísland.“ Skortur á innviðum er líka áberandi. „Þannig að maður skilur hvað hernaður hefur verið erfiður hér,“ segir Una og minnir á að Afganistan sé búið að vera stríðshrjáð ríki um áratuga skeið. „Síðan eru sveitirnar hérna ofboðslega vanþróaðar og það sama má raunar segja um úthverfi Kabúl. Þar er fátæktin mikil.“

Una að mynda 207. herdeild afganska hersins í Herat við …
Una að mynda 207. herdeild afganska hersins í Herat við almenna þjálfun, sem þeir fá með aðstoð ráðgjafa og þjálfara frá ítalska hernum, áður en þeir eru sendir út á víglínuna. Ljósmynd/Kay Nissen

Kabúl og Herat eru engu að síður stórborgir með iðandi mannlífi og segir Una Herat vera sérlega fallega ásýndar. „Hún minnti mig svolítið á Íran,“ segir hún. Þangað brá Una sér í sumarfríi sínu í fyrra sérstaklega með það í huga að kynnast því hvernig væri að vera í landi þar sem múslimar eru ráðandi meirihluti.

„Afganistan hefur að sjálfsögðu margar fallegar hliðar líka, en þar er mikill munur á þeim sem búa í sveitunum og þeim sem búa í borginni,“ segir hún og vísar þar til þess að sveitir landsins séu mjög vanþróaðar og fátækt þar mikil.

Horft yfir sveitir Afganistan út um afturendann á Chinook-flutningaþyrlu frá …
Horft yfir sveitir Afganistan út um afturendann á Chinook-flutningaþyrlu frá Bandaríkjaher. Ljósmynd/Una Sighvatsdóttir

Kærkomið frelsi að komast í fjallgöngu

Fyrir þann sem er vanur að hafa útsýni til allra átta getur lífið í herstöðinni alveg reynst hamlandi. „Maður fær stundum innilokunarkennd,“ viðurkennir Una. „Ég get alveg stundum orðið vitlaus á því að sjá ekki sjóndeildarhringinn dögum og jafnvel vikum saman.“

Þar sem hún gerir töluvert af því að ganga á fjöll heima á Íslandi er henni sérlega minnisstætt að hafa fengið tækifæri til að fara í fjallgöngu í Afganistan með öryggisteymi sem átti frídag. „Við keyrðum út fyrir borgina og gengum upp á fjall í 2.300 metra hæð,“ segir Una. „Þetta var að vetri til og allt var snævi þakið og útsýnið yfir Kabúl-dalinn var alveg ótrúlega fallegt. Það fylgdi því mjög kærkomin frelsistilfinning að fá að gera þetta og ég og vinkona mín sem fór með mér í þessa ferð, við höfum oft rætt það hvað Afganistan gæti verið mikil útivistarparadís fyrir ferðamenn ef það kemst einhvern tímann friður hér á.“

Una myndar æfingu hermanna í Herat.
Una myndar æfingu hermanna í Herat. Ljósmynd/Robert Trujillo

Alltaf spenna í loftinu

Þó að umhverfið innan veggja herstöðvarinnar sé nokkuð öruggt, fara átökin utan múranna ekki fram hjá þeim sem þar búa. Una heyrir t.d. reglulega sprengingar í Kabúl inn um gluggann hjá sér og þá er henni minnisstæð árás sem gerð var á stærsta hersjúkrahús í Afganistan í byrjun marsmánaðar og kostaði 30 manns lífið. Una var á ferð á sjúkrahúsinu nokkrum dögum fyrr til að taka viðtal við kvenlækna sem þar starfa.

„Það er stundum auðvelt að gleyma því að þessi hætta sé yfirvofandi, því að maður upplifir sig svolítið í vernduðu umhverfi hérna. Það er þó alltaf spenna í loftinu og maður er meðvitaður um að það er alltaf möguleiki á því að eitthvað slæmt geti gerst,“ segir hún. Starfsfólk NATO á staðnum þarf því að vera vel vakandi og geta metið aðstæður.  „Ég þyrfti þó að vera mjög óheppin til að vera á röngum stað á röngum tíma, en það getur vissulega alltaf gerst. Maður getur hins vegar alltaf verið óheppinn, líka í umferðinni heima á Íslandi, þannig að ég læt það ekki hamla mér.“

Camp Marmal, herstöð sem Þjóðverjar stjórna, í norðurhluta Afganistan á …
Camp Marmal, herstöð sem Þjóðverjar stjórna, í norðurhluta Afganistan á aðfangadag 2016. Þarna var Una búin að vera 12 daga í Afganistan þegar hún var send í einkaþotu í ferð með John Nicholson, æðsta hershöfðingja NATO í Afganistan, milli herstöðva í öllum landshlutum til að heilsa upp á hermenn allra þjóða og bera þeim kveðju og þakkir. CNN hefur mikið notað myndefni sem Una tók í þessari ferð. Ljósmynd/Robert Trujillo

Virkar í meiri hættu í fjarlægð

Hún viðurkennir þó að fjölskyldan heima hafi vissulega áhyggjur af sér. „Ég held að þessar aðstæður virki miklu meira ógnvekjandi úr fjarlægð en þegar maður er komin á staðinn. Auðvitað upplifa þau ákveðið stjórnleysi og varnarleysi þegar þau heyra fréttir frá Afganistan og upplifa mig því oft í meiri hættu en ég raunverulega er.  Ég reyni hins vegar alltaf að senda þeim skilaboð jafnfljótt og ég get til að láta vita af mér þegar eitthvað hefur gerst.“

Dvölin hennar í Afganistan hefur líka verið lærdómsrík, þó að hún segist enn vera í miðju lærdómsferlinu. „Það er hluti af því sem gerir þetta svo skemmtilegt.  Ég hef ferðast töluvert og hluti af því sem er svo gaman við að ferðast á nýjar slóðir er að manni er kastað inn í nýjar aðstæður þar sem maður þarf að beita hyggjuvitinu til að spjara sig. Að koma hingað eru hins vegar öfgakenndustu aðstæður sem ég hef komið í,“ segir hún.

Von er á Unu heim til Íslands í árslok, þó að til greina komi að framlengja dvölina um nokkra mánuði. Hún segist vel geta hugsað sé að starfa aftur fyrir NATO á erlendri grundu. „Þetta er búið að vera góð og dýrmæt reynsla og mér finnst gaman að vinna í þessu alþjóðlega umhverfi. Ef mér býðst álíka tækifæri aftur held ég að ég myndi þó vilja fara eitthvað annað bara til þess að læra meira og geta lagt meira af mörkum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert