Vilborg nálgast toppinn

Everest-fjall.
Everest-fjall. Ljósmynd/Vilborg Arna

Vilborg Arna Gissurardóttir stefnir á að komast á tind Everest-fjalls í nótt. Hún er nú stödd í 8.700 metra hæð á næsthæsta tindi heims, svokölluðum Suður-Tindi (e. South Summit), og vonir eru bundnar við að toppnum verði náð um kl. þrjú í nótt.

Tómasz Þór Veruson, kærasti Vilborgar, segir í samtali við mbl.is að útlitið sé gott.

Komist Vilborg á tindinn verður hún sjöundi Íslendingurinn sem nær þessum áfanga og er fyrsta íslenska konan sem nær að virða fyrir sér útsýnið ofan af hæsta tindi veraldar, en þetta er þriðja tilraun hennar til að sigrast á Everest-fjalli.

Vilborg lagði af stað á toppinn frá fjórðu búðum fjallsins síðdegis á föstudag en varð frá að hverfa í fyrrinótt sökum veðurs. Hún lagði aftur af stað frá fjórðu búðunum síðdegis í gær og á fyrsta tímanum í nótt var hún komin í 8.700 metra hæð. Everest er 8.848 metrar.

 

Í dag, 21. maí, eru 20 ár liðin frá því að Íslendingar stóðu fyrst á tindi Everest-fjalls. Fjallgöngukapparnir Björn Ólafsson, Einar K. Stefánsson og Hallgrímur Magnússon unnu það afrek.

Haraldur Örn Ólafsson gekk næstur Íslendinga á þetta hæsta fjall heims og stóð á tindi Everest 16. maí 2002. Tveir Íslendingar gengu á Everest vorið 2013. Ingólfur Geir Gissurarson náði tindinum 21. maí. Hann stóð þá á fimmtugu og var elsti Íslendingurinn og eini íslenski afinn sem hafði gengið á hæsta fjall heims.

Leifur Örn Svavarsson náði tindi Everest 23. maí. Hann er eini Íslendingurinn sem hefur farið norðurleiðina á Everest, en hún er tæknilega erfiðari en suðurleiðin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert