Ekkert hússtjórnarnám næsta haust

Hússtjórnarskólinn á Hallormsstað.
Hússtjórnarskólinn á Hallormsstað. mbl.is/Sigurður Bogi

Handverks- og hússtjórnarskólinn á Hallormsstað verður ekki starfræktur næsta vetur ef fer sem horfir en fram kemur á vefsíðu skólans að mennta- og menningarmálaráðuneytið telji hússtjórnarbraut hans ekki falla að aðalnámskrá framhaldsskólanna. Fyrir vikið geti skólinn ekki boðið upp á námið sem hann hafi staðið fyrir undanfarna áratugi.

„Ráðherra og ráðuneytið móta menntastefnu landsins og hafa því um það að segja hvort stutt hagnýtt nám í hússtjórnargreinum falli innan ramma aðalnámskrár framhaldskólanna og menntastefnu almennt. Fulltrúar skólans hafa fundað tvívegis með embættismönnum ráðuneytis þar sem áhersla hefur verið lögð á útfærslu og þróun námsframboðs og framtíðarstefnu skólans, auk þess að óska ítrekað eftir fundi með ráðherra. Því kom mjög á óvart þegar ráðherra og fulltrúi frá ráðuneytinu funduðu með fulltrúum skólans í síðastliðinni viku og tilkynntu að samkvæmt mati þeirra falli hússtjórnarnám, eins og það hefur verið kennt, ekki að aðalnámskrá framhaldsskólanna,“ segir ennfremur.

Þá segir að umsóknir fyrir komandi haustönn verið mun fleiri en þau pláss sem skólinn bjóði upp á. Umsækjendur hafi verið upplýstir um stöðu mála og vísað á aðra skóla. Ekki hafi mátt seinna vera fyrir umsækjendur að sækja um nám í öðrum skólum en þar valdi dráttur á svörum frá ráðuneytinu. Harmar skólinn þá stöðu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert