Endurheimtir hjartfólgið hálsmen

Ferðamenn í miðborginni.
Ferðamenn í miðborginni. mbl.is/Eggert

Bandarísk kona mun á næstunni endurheimta dýrmætt hálsmen sem hún glataði á Íslandi fyrir um tveimur mánuðum, með aðstoð framtakssams starfsmanns minjagripaverslunar og ráðagóðs starfsmanns bandarísku neyðarlínunnar 911.

Hálsmenið er ekki dýrmætt í þeim skilningi að það sé mikils virði peningalega séð en á því er að finna fingraför og fæðingar- og dánardaga foreldra Ashley Fusco, sem létust í bílslysi árið 2008.

Fusco, sem hefur gengið með hálsmenið á hverjum degi í 9 ár, glataði því þegar hún heimsótti Reykjavík fyrir skömmu og var miður sín þegar hún neyddist til að halda heim til Bandaríkjanna án þess.

Það var Hera Björk Þormóðsdóttir, 22 ára starfsmaður Idontspeakicelandic, sem fann menið í versluninni og ákvað að auglýsa það á Facebook. Færsla Heru birtist í Facebook-flæði Kimberly Robinson, starfsmanns 911 í Tioga-sýslu í Pennsylvaníu, en henni tókst að finna nöfn foreldra Fusco með því að leita að dánardeginum í minningargreinum.

Sagðist Robinson hafa fundið fyrir tengingu við Edward Fusco, þar sem hann starfaði fyrir 911 í 25 ár, að því er Pittsburgh Post-Gazette greinir frá.

Fréttir af fundinum bárust Fusco um Facebook. „Í fyrstu var ég í sjokki, ef ég á að vera hreinskilin. Ég meina, það voru tveir mánuðir síðan ég týndi því,“ segir hún, þakklát öllum þeim sem hjálpuðu henni við að endurheimta menið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert