Ráðningarsamningur ekki borinn undir stjórn

Ólafur Arnarson, formaður Neytendasamtakanna.
Ólafur Arnarson, formaður Neytendasamtakanna. mbl.is/Golli

Stjórn Neytendasamtakanna fól varaformanni að undirrita ráðningarsamning samtakanna við Ólaf Arnarson, formann samtakanna, sem var gerður á grundvelli álits starfskjaranefndar. Þetta var samþykkt á stjórnarfundi 15. febrúar síðastliðinn og kemur fram í fundargerð stjórnar. Sá ráðningarsamningur var ekki borinn undir stjórnina. Í þeim samningi fólst að Ólafur gegndi bæði formennsku og væri framkvæmdastjóri samtakanna.

Í áliti starfskjaranefndar sem var fengin til að gera tillögu að ákveðnu fyrirkomulagi er launum Ólafs skipt í tvennt. Stærri hluti launanna var fyrir starf framkvæmdastjóra og minnihluti fyrir formennsku. Þetta segir Ása Steinunn Atladóttir, varaformaður samtakanna, sem skrifaði undir samninginn. Álit starfskjaranefndar ræddi laun allra starfsmanna en það eina sem var tekið til greina í því áliti varðaði laun Ólafs.

Öll stjórnin hefði átt að fá samninginn

„Í fáfræði minni skrifa ég undir í umboði stjórnar en eftir á að hyggja sá ég að auðvitað hefði átt að leggja ráðningarsamninginn fyrir stjórnina alla þannig að hægt væri að taka afstöðu til samningsins með tillit til fjárhagsstöðunnar,“ segir Ása.

Stjórn sam­tak­anna samþykkti van­trausts­yf­ir­lýs­ingu á for­mann­inn á síðasta stjórn­ar­fundi sem hald­inn var 6. maí. Ólaf­ur hef­ur gegnt embætti síðan í októ­ber.

Fjárhagurinn illa staddur

Að sögn Ásu er ástæðan fyrir vantraustsyfirlýsingunni trúnaðarbrestur því Ólafur virðist ekki taka til sín alvarlega fjárhagsstöðu samtakanna. Í apríl kom í ljós að fjárhagur samtakanna er mjög illa kominn. „Í raun og veru eru engir peningar til til að standa undir öllum þeim útgjöldum sem Ólafur stofnaði til. Öll lætin eru út af því að stjórnin er að reyna að bjarga fjárhag samtakanna svo þau fari ekki á hausinn. Þetta eru samtök sem starfa í almannaþágu,“ segir Ása. 

Ása segir að þegar ljóst var hve slæm fjárhagsstaðan var ákvað stjórnin að grípa til aðgerða. Þá kom meðal annars í ljós að hann hefði skuldbundið samtökin meðal annars vegna neytenda-appsins án þess að bera það undir stjórn, segir Ásta.

Ása segir Ólaf hafa unnið sjálfstætt fram hjá stjórninni og tekið ýmsar ákvarðanir án þess að bera þær undir stjórnina. 

Stjórnin kemur saman á fundi í dag kl. 17 þar sem meðal annars verður farið yfir rótina að vantraustsyfirlýsingunni. Útlit er fyrir að átök verði á fundinum. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert