Þetta kallast kosningasvik

Lilja Alfreðsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.
Lilja Alfreðsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lilja Alfreðsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, skaut föstum skotum á Jónu Sólveigu Elínardóttur, formann utanríkismálanefndar og þingmann Viðreisnar, í umræðum um Brexit og áhrifin á Íslandi á Alþingi í dag.

Jóna Sólveig benti á, í ræðu sinni, að hún og Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra og þingmaður Sjálfstæðisflokksins, eru ekki í sama flokki. „Ráðherra er í flokki sem talar fyrir áframhaldandi aukaaðild að Evrópusambandinu í gegnum EES. Ég er í Viðreisn sem er galopin fyrir því að kanna og kynna fyrir landsmönnum þá kosti sem aðild að ESB fylgir og leyfa þjóðinni sjálfri að velja hvað hún vill í þeim efnum,“ sagði Jóna Sólveig.

Jóna Sólveig Elínardóttir, þingmaður Viðreisnar.
Jóna Sólveig Elínardóttir, þingmaður Viðreisnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Finnst þetta óboðlegt

Lilja sagði að það væri með ólíkindum að formaður utanríkismálanefndar kæmi í pontu og gerði lítið úr stefnu utanríkisráðherra. „Væri ekki miklu heiðarlegra af Viðreisn að segja sig frá þessu ríkisstjórnarsamstarfi? Mér finnst þetta óboðlegt,“ sagði Lilja.

Jóna kom aftur í pontu og sagði að það skipti máli að ólíkum sjónarmiðum ólíkra flokka sé haldið á lofti í þingsal og að hún virði að sjálfsögðu utanríkisráðherra og utanríkisstefnu landsins. „Hún á ekki að hamla málfrelsi og skoðanafrelsi þingmanna.

Rosaleg viðkvæmni hérna

Lilja sagði að auðvitað væri málfrelsi og fólk ætti að skiptast á skoðunum á þingi. „Hins vegar er það svo að ef maður kynnir stefnu í aðdraganda kosninga, til að mynda þann áhuga og vilja að ganga í Evrópusambandið, og ekkert af þeim markmiðum er að nást í samkomulagi sem viðkomandi flokkur á þá kallast það...“ sagði Lilja og var þá trufluð með hrópum og köllum úr þingsal. 

„Það er rosaleg viðkvæmni hérna. Þingmenn Viðreisnar koma hérna og leyfa ekki viðkomandi þingmanni að klára mál sitt. Það sýnir að maður er að snerta veikan blett. Þetta kallast á einfaldri íslensku kosningasvik,“ sagði Lilja eftir að þingforseti bað þingmenn um að leyfa henni að klára mál sitt.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert