Þjóðaröryggisráð kom saman í fyrsta sinn

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra.
Bjarni Benediktsson forsætisráðherra. mbl.is/Eggert

Þjóðaröryggisráð kom saman í fyrsta sinn í dag en lög um það voru samþykkt á þingi í september á síðasta ári. Ráðinu er ætlað að framfylgja þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland eins og hún er á hverjum tíma, að stefnan sé endurskoðuð reglulega og að viðeigandi samráð stjórnsýsluaðila innbyrðis og við Alþingi eigi sér farveg og fari reglulega fram. Þetta kemur fram í tilkynningu. 

„Verkefni þjóðaröryggisráðs eru viðamikil og ég bind miklar vonir við störf þess. Við sjáum hér tækifæri til þess að skerpa boðleiðir, skilgreina verkaskiptingu enn betur og gera samstarfið enn skilvirkara.“ Þetta er haft eftir Bjarna Benediktssyni forsætisráðherra í tilkynningu. 

„Með stofnun ráðsins er jafnframt stigið skref í þá átt að styrkja samhæfingu og, sé þjóðaröryggi ógnað, að tryggja samræmd viðbrögð hlutaðeigandi viðbragðsaðila.“ Þetta kemur jafnframt fram í tilkynningu. 

Í þjóðaröryggisráði sitja 11 fulltrúar. Forsætisráðherra er formaður ráðsins og stýrir fundum þess. Þá eiga þar sæti utanríkisráðherra, dómsmálaráðherra og ráðuneytisstjórar ráðuneytanna þriggja. Enn fremur eiga fast sæti í ráðinu tveir þingmenn, annar úr þingflokki sem skipar meirihluta á þingi en hinn er úr þingflokki minnihluta. Þá sitja í ráðinu forstjóri Landhelgisgæslunnar, ríkislögreglustjóri og fulltrúi Landsbjargar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert