Alþjóðlega mikilvæg búsvæði fugla hér

Skúmur í Öræfum.
Skúmur í Öræfum. mbl.is/Rax / Ragnar Axelsson

Skýrsla um búsvæði fugla og íslenskar fuglategundir var kynnt á ársfundi Náttúrufræðistofnunar Íslands (NÍ) í gær. Kristinn Haukur Skarphéðinsson, sviðsstjóri dýrafræði hjá NÍ, hélt þar tvö erindi, um mikilvæg fuglasvæði á Íslandi og um Breiðafjörð – alþjóðlega mikilvægt fuglasvæði. Þriðja fuglaerindið, Mófuglar – nýtt stofnmat á grunni vistgerða, flutti Guðmundur A. Guðmundsson, dýravistfræðingur hjá NÍ.

Kristinn sagði að erindin væru kynning á stóru verkefni, Natura Ísland, sem snýst um skráningu á náttúrufari á Íslandi. Vinna við verkefnið hófst þegar Ísland sótti um aðild að ESB. Skýrslan Mikilvæg fuglasvæði á Íslandi, sem er hluti af verkefninu,er væntanleg í júní. Í henni er annars vegar ítarleg umfjöllum um íslenskar fuglategundir og nýtt mat á öllum íslenskum fuglastofnum. Þar munar mest um nýtt mat á stofnum vaðfugla og spörfugla.

Hins vegar er bent á svæði hér á landi sem teljast vera alþjóðlega mikilvæg fyrir fuglategundir sem dvelja hér að staðaldri. Í kjölfarið verða gerðar tillögur að verndarsvæðum.

119 mikilvæg fuglasvæði

Í skýrslunni eru skilgreind 119 alþjóðlega mikilvæg fuglasvæði. Við val á þeim er gjarnan miðað við að 1% af stofni nýti svæðið reglulega, 10.000 pör fugla verpi þar eða að 20.000 einstaklingar fugla nýti svæðið reglulega.

Tæplega helmingur þessara svæða, eða 55, hefur verið skilgreindur áður og eru þau svæði friðlýst, á Náttúruminjaskrá eða votlendisskrá vegna auðugs fuglalífs að hluta til eða að öllu leyti.

Flest mikilvægu fuglasvæðin, eða 70, eru sjófuglabyggðir. Innan þeirra verpir meirihluti af 15 stofnum sjófuglategunda, en þær eru 24 hér á landi. Það á við um alla stærstu sjófuglastofnana nema kríu.

Dr. Arnþór Garðarsson, dýrafræðingur, gerði úttekt á fýlabyggðum fyrir nokkrum árum. „Gríðarlega stórar fýlabyggðir á Vestfjörðum koma nú í fyrsta skipti inn í svona skrár,“ sagði Kristinn.

Hann sagði að um 20 fuglasvæði væru fyrst og fremst fjörur og grunnsævi. Þau laða til sín vaðfugla í tuga og hundraða þúsunda tali og gegna mikilvægu hlutverki fyrir farfugla eða sem vetrardvalarstaðir. Æðarfuglar nýta þessi svæði líka mikið. Sum þessara svæða eru einnig fjaðrafellistaðir andfugla.

Um 30 svæði inn til landsins einkennast flest af lífríku mýrlendi, vötnum og ám. Flest þeirra eru mikilvæg varpsvæði en ýmsir vatnafuglar koma þar líka við vor og haust. Sumir fella þar fjaðrir. Nokkur lindasvæði eru mikilvægir vetrardvalarstaðir, fyrst og fremst fyrir húsönd og gulönd. Í þennan flokk er líka skipað svæðum sem einkennast af víðáttumiklum óbyggðum.

Breiðafjörður er í hættu

„Breiðafjörður er mjög mikilvægt fuglasvæði og hefur lengi verið í deiglunni varðandi verndaraðgerðir,“ sagði Kristinn. Breiðafjörður er mjög mikilvægur fyrir um 19 fuglategundir. Um 80% af íslenskum toppskarfi eru þar, 2/3 hlutar hafarnastofnsins og meira en helmingur af margæsum sem fara hér um hafa viðdvöl þar. Kristinn sagði að umsvif manna ógnuðu lífríki fjarðarins.

„Mesta óvissan tengist áformum um margfalt aukna þangtekju. Engar rannsóknir eru fyrirhugaðar um áhrif hennar á lífríkið í heild. Mér finnst stjórnvöld og aðrir sem véla þarna um sýna fullkomið skeytingarleysi,“ sagði Kristinn. Hann nefndi einnig vegagerð við fjörðinn og áform um endalausar þveranir án þess að taka tillit til þess að þetta er merkilegt verndarsvæði. Þessu fylgir óvissa og mikil lýti á landslaginu. Loks nefndi hann áhrif ferðamennskunnar á umhverfið og byggingu frístundahúsa í æ fleiri eyjum og eyðinesjum við Breiðafjörð.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert