Greiddi félagsgjöld fyrir 45 manns

Ólafur Arnarson, formaður Neytendasamtakanna.
Ólafur Arnarson, formaður Neytendasamtakanna. mbl.is/Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Formaður Neytendasamtakanna, Ólafur Arnarson, greiddi félagsgjöld fyrir 45 manns fyrir þing samtakanna þar sem hann var síðan kjörinn formaður. Þetta staðfestir Ólafur aðspurður í samtali við Ríkisútvarpið. Hann segir það ekkert leyndarmál að hann hafi smalað á þingið. Hann þvertekur hins vegar fyrir að hafa greitt félagsgjöldin fyrir fólkið úr eigin vasa.

Þannig hafi sumir kosið að leggja inn á reikning Ólafs í stað þess að leggja beint inn á reikning Neytendasamtakanna. Hann hafi síðan tekið að sér að koma peningunum áfram. Fram kemur í fréttinni að alls hafi Ólafur millifært 243 þúsund krónur inn á reikning samtakanna en félagsgjöldin eru 5.400 krónur. Aðspurður segist hann ekkert sjá að slíkri smölun.

Einnig kemur fram að Ólafur hafi fengið greidd þrenn mánaðarlaun fyrir fram eftir að hann tók við sem formaður Neytendasamtakanna án þess að það væri borið undir stjórn. Ólafur staðfestir einnig að þetta sé rétt en segist ekkert sjá að því heldur. Stjórnin hafi aldrei skipt sér af slíkum „afgreiðslumálum á skrifstofunni“. Fjármálastjórinn hafi ekkert séð að þessu.

Greiðslurnar voru samkvæmt munnlegu samkomulagi en fjármálastjórinn, sem nú er framkvæmdastjóri Neytendasamtakanna, Páll Rúnar Pálsson, segist hafa upplýst stjórnina um greiðslurnar. Þá er haft eftir Ólafi að stjórn samtakanna skipti engu máli og hafi í raun og veru engu hlutverki að gegna. Neytendasamtökin þyrftu í raun enga stjórn.

Ólafur hefur átt í deilum við stjórn Neytendasamtakanna sem hefur meðal annars sakað hann um að eiga þátt í því að setja fjárhag samtakanna í uppnám. Ólafur hefur þvertekið fyrir að vera sekur um slíkt og sagt að hann skilji ekkert í ásökunum stjórnarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert