Fær að búa hjá föður sínum

Faðir íslensks drengs, sem til stóð að yrði settur í fóstur hjá vandalausum í Noregi eftir að móðir hans var svipt forræði yfir honum, fær forræðið. Þessu greinir föðuramma drengsins frá á Facebook-síðu sinni. Drengurinn bjó í Noregi ásamt móður sinni en þegar fyrir lá að koma ætti drengnum í fóstur þar í landi fór móðuramma hans með hann til Íslands.

Frétt mbl.is: Drengurinn verður áfram á Íslandi

Hæstiréttur Íslands úrskurðaði að senda ætti drenginn aftur til Noregs en í kjölfar samningaviðræðna á milli íslenskra og norskra barnaverndaryfirvalda samþykktu norsk barnaverndaryfirvöld að fullnægja ekki dóminum en ekki lá hins vegar fyrir hverjum yrði falið að sjá um drenginn. Nú liggur hins vegar fyrir að faðir hans fær forræðið.

Meðan á málinu stóð barðist föðurfjölskylda drengsins fyrir því að hann gæti dvalið hjá föður sínum en hann býr í Danmörku. Drengurinn mun því alast upp hjá föður sínum og fjölskyldu hans en föðuramma drengsins fór með hann til föður síns í mars.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert