Hjartslátturinn í húsinu

Sif Gunnarsdóttir hefur verið forstöðumaður Norðurlandahússins í Þórshöfn í Færeyjum …
Sif Gunnarsdóttir hefur verið forstöðumaður Norðurlandahússins í Þórshöfn í Færeyjum í tæp fjögur og hálft ár og er með samning út 2020. mbl.is/Steinþór Guðbjartsson

Norðurlandahúsið í Þórshöfn í Færeyjum er nokkurskonar menningarhjarta Færeyinga og Sif Gunnarsdóttir hefur stjórnað hjartslættinum í húsinu síðan í ársbyrjun 2013.

Það er alltaf eitthvað um að vera í húsinu. Þessa dagana er verið að undirbúa ljósmyndasýninguna Eitt ár í Færeyjum, sem verður uppi í þrjá mánuði frá 7. júní. Allar myndir á sýningunni voru teknar frá 28. apríl í fyrra til 28. apríl í ár. Annars er rólegra í húsinu á sumrin og tíminn þá notaður til viðgerða og lagfæringa. „Við erum að dytta að innanstokksmunum, sem við komumst aldrei í á veturna,“ segir Sif.

Ráðstefnunni Turninn á heimsenda er nýlokið, en þar fjölluðu 12 rithöfundar og 12 bókmenntafræðingar við háskóla um „eyjabókmenntir“. Rithöfundarnir áttu það sammerkt að vera fæddir og uppaldir á eyjum víðs vegar í heiminum. Sigurjón Birgir Sigurðsson, Sjón, var fulltrúi Íslands og með honum var Ástráður Eysteinsson, prófessor við Háskóla Íslands. Markmiðið var að skoða hvort rithöfundar frá eyjum ættu eitthvað sameiginlegt í verkum sínum.

„David Damrosch, prófessor við Harvard-háskóla í Bandaríkjunum, bar til dæmis saman Egil Skallagrímsson og Derek Walcott, Nóbelsverðlaunahafa í bókmenntum 1992, frá Saint Lucia í Karíbahafinu, og sýndi fram á að ákveðin líkindi væru með þeirra skáldskap, sem byggðist á þeim raunveruleika sem þeir lifðu og hrærðust í sem eyjamenn þó höf og aldir hafi skilið þá að,“ segir Sif.

Áður en Sif hélt í víking til Færeyja í fyrsta sinn hafði hún unnið hjá Reykjavíkurborg í um 14 ár og þar af hjá höfuðborgarstofu í tíu ár, fyrst sem viðburðastjóri og svo sem forstöðumaður. „Þetta var ævintýraþrá,“ segir hún um umsóknina um forstöðumannsstarfið í Norðurlandahúsinu. „Maðurinn minn hafði einu sinni komið til Færeyja, fannst það dásamlegur staður, hvatti mig til dáða og ég lét slag standa.“

Ávísun á mikla skemmtun

Sif segir að starfið hafi að mörgu leyti komið á óvart. Norræna húsið í Reykjavík hafi verið helsta viðmiðið, en það gegni allt öðru hlutverki en Norðurlandahúsið í Þórshöfn. „Þetta hús er miklu stærra og það er í raun húsið með ákveðnum greini í færeysku menningarlífi. Það er því mikill ábyrgðarhluti að fá að veita þessu húsi forstöðu í nokkur ár.“

Um 400 viðburðir eru í Norðurlandahúsinu á ári. Sif segir að öllum menningarheimum sé sinnt og ekki síst því sem börn og unglingar koma að. „Við eigum að vera sýnisgluggi fyrir norræna menningu og listir og því þurfum við að gæta þess að sýna eitthvað frá öllum ríkjum Norðurlandanna. Við verðum líka að gæta þess að verkefnavalið sé aðgengilegt og spennandi blanda allra listgreina.“

Sif segir að samtímis því að vera norræn menningarstofnun gegni Norðurlandahúsið mikilvægu hlutverki fyrir færeyska listamenn. Menningarlífið sé í miklum blóma og um 130 þúsund manns leggi leið sína í húsið á ári. „Það er mikið um að vera í færeyskri tónlist og mikil gróska í bókmenntum og myndlist. Færeyingar eru gegndarlaust yndislegir og taka ótrúlega vel á móti sínum gestum. Að hafa flutt til Færeyja var ávísun á mikla skemmtun.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert