Ógeðfelld aðför að Landspítalanum

Steingrímur J. Sigfússon.
Steingrímur J. Sigfússon. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Ég vil gera að umtalsefni það sem ég kýs að kalla ógeðfellda aðför stjórnarliða að Landspítalanum,“ sagði Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður VG, á Alþingi í dag. Hann gagnrýndi tillögur meirihluta fjárlaganefndar þess efnis að ætla að setja pólitíska stjórn yfir spítalann.

Hann sagði það ljóst að valdhöfunum líkaði ekki að stjórnendur spítalans hefðu gert það sem þeir eiga að gera; upplýsa þjóðina um stöðuna á spítalanum. „Það á að setja þöggunarnefnd yfir stjórnendur Landspítalans,“ sagði Steingrímur.

Hann sagði enn fremur að Landspítalinn væri ekki eins og hvert annað fyrirtæki, sem mörg hver væru með yfirstjórn. „Landspítalinn er háskólasjúkrahús, akademísk stofnun. Á líka að setja stjórn yfir akademískt frelsi spítalans. Hvert eru menn hér að fara?“

Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Stjórnendur viðkæmir

Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagðist undrast hversu viðkvæmir stjórnendur spítalans séu fyrir umræðunni. „Sjálfur var ég á sínum tíma í stjórn sjúkrahússins í Vestmannaeyjum í ein átta ár, en stjórnir yfir sjúkrahúsunum á landsbyggðinni voru settar af árið 2000. Ég er algjörlega sannfærður um að það hafi verið mikil afturför fyrir sjúkrahúsin þegar þessar heimastjórnir voru settar af,“ sagði Ásmundur.

„Ekki það að ég vantreysti þeim sem stjórna spítalanum núna heldur er það bara eðlilegt að fulltrúar eigendanna, kjörnir aðilar komi að fyrirtækinu til að hjálpa,“ bætti Ásmundur við.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert