Syrpuþonið fer fram í dag

mbl.is

„Við eigum það sameiginlegt með öllum hjá Disney að hafa mikinn metnað til þess að börn og unglingar lesi. Lesi til að afla sér þekkingar, lesi sér til ánægju og eins geti lesið texta upphátt svo aðrir hafi gaman af.“

Þetta segir María Johnson, markaðsstjóri Eddu, og vísar þar til Syrpuþons sem haldið verður í verslun Eymundsson í Kringlunni í dag á milli klukkan 13 og 16. Þar er á ferðinni upplestraruppákoma fyrir hressa krakka á aldrinum 10 til 14 ára. 

„Við hjá Eddu erum mjög spennt fyrir Syrpuþoninu og við fengum Björgvin Franz Gíslason leikara til að vera með á uppákomunni og leiðbeina krökkunum. Þetta verður því vafalaust heilmikil skemmtun fyrir alla sem mæta,“ segir María.

Fyrirkomulagið er einfalt. Krakkarnir skrá sig til leiks á www.andresond.is/syrputhon og mæta svo í Eymundsson. Þar leiklesa þau upp úr Syrpu í 1 til 2 mínútur í senn og fá sem fyrr segir aðstoð og ráðleggingar frá Björgvini Franz.

Uppákoman verður svo tekin upp á myndband og sýnt beint frá henni hér á mbl.is. Síðan verða tvö (stelpa og strákur) valin úr hópi þátttakenda til að vera „Syrpuröddin“ og fá þannig tækifæri til að lesa inn á auglýsingar fyrir Syrpur og Andrés Önd.

Allir þátttakendur fá glaðning sem viðurkenningu fyrir þátttökuna og léttar veitingar verða í boði frá Hamborgarafabrikkunni.

Björgvin Franz Gíslason.
Björgvin Franz Gíslason. mbl.is/Eggert
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert