Komin á hótel eftir klukkustunda bið

Farþegi sefur á ferðatösku sinni á flugvelli í London. Öllum …
Farþegi sefur á ferðatösku sinni á flugvelli í London. Öllum flugferðum British Airways til og frá London var aflýst í dag. AFP

Indíana Ósk Róbertsdóttir er strandaglópur í Búlgaríu eftir að öllum flugferðum British Airways um Heathrow og Gatwick var aflýst í dag vegna tölvubilunar. Hún var komin út í vél sem var komin út á flugbraut á flugvellinum í Sofía er allt var sett í biðstöðu sem stóð svo í marga tíma. Hún er nú stödd á „fínasta hóteli“ og segir flugfélagið hafa séð ágætlega um hana og afa hennar sem er með henni á ferðalaginu.

„Við vorum komin út í vél og allt á réttum tíma. Vélin var komin út á miðja flugbraut þegar hún sneri við,“ segir Indíana í samtali við mbl.is. Hún hefur verið í Búlgaríu í tólf daga ásamt afa sínum.

Bilun í tölvukerfum British Airways hefur haft áhrif á ferðalög þúsunda í dag. Löng fríhelgi er í Bretlandi, svokallað „bank holiday“, og voru farþegar á Heathrow og Gatwick ekki par sáttir við stöðuna. Þeir sögðu að illa hafi gengið að fá upplýsingar. Engar vísbendingar eru um tölvuárás heldur er talið að aðeins sé um bilun að ræða.

Löng bið í vélinni

Indíana segir að í fyrstu hafi upplýsingar verið af skornum skammti. Flugstjórinn í vélinni sem hún þurfti að bíða lengi um borð í vissi lítið og því var beðið frekari upplýsinga. Síðar fengust þær upplýsingar að tölvukerfið væri hrunið um „allan heim“. 

Indíana Ósk Róbertsdóttir.
Indíana Ósk Róbertsdóttir.

Hún segir í færslu á Facebook, þar sem hún fer yfir málið, að flugfreyjan hafi svo gengið um farþegarýmið og spjallað við farþega. Þá hafi farþegum verið boðið vatn. „Ef við komumst ekki í loftið á næstu þremur tímum þá fljúgum við ekki í dag,“ skrifaði Indíana, sem bauð mbl.is að nýta efni færslunnar, á Facebook kl. 13 í dag að íslenskum tíma.

Klukkustund síðar voru engar frekari fregnir en farþegar beðnir að fara inn í flugstöðina til að bíða þar. Þá var vonast til að vélin kæmist í loftið í kvöld. Þá fengust þær upplýsingar ef ekki yrði flogið um kvöldið yrði öllum boðin gisting á hóteli og flugi á morgun.

Milli 15 og 16 var ljóst að ekkert yrði flogið. Þá var farþegum boðið Sprite og samloka á flugvellinum. „Deginum bjargað!“ skrifaði þá Indíana. Þá tók við bið að fá upplýsingar um hótel sem Indíana og ferðafélagar hennar myndu gista á í nótt. 

Ekki er víst að hópurinn geti flogið áleiðis til Íslands á morgun þó að flugfélagið stefni að því.

Um kl. 17 var Indíana svo komin á Holiday Inn-hótelið. Þar fékk hópurinn ókeypis kvöldmat og fær sömuleiðis morgunmat í fyrramálið. „Þeir eru búnir að sjá ágætlega um okkur og reyna eftir bestu getu að koma upplýsingum til okkar,“ segir Indíana. „Við fáum svo skaðabætur og að sjálfsögðu redda þeir öðru flugi til Íslands á morgun.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert