Eldur í fiskimjölsverksmiðju

Slökkviliðsmenn að störfum við fiskimjölsverksmiðju HB Granda á Vopnafirði í …
Slökkviliðsmenn að störfum við fiskimjölsverksmiðju HB Granda á Vopnafirði í dag. mbl.is/Jón Sigurðsson

Eldur kom upp í fiskimjölsverksmiðju HB Granda á Vopnafirði í morgun. Slökkviliðsmenn eru enn á staðnum en hafa náð tökum á eldinum.

Samkvæmt upplýsingum frá Brunavörnum Austurlands kom eldurinn upp í röri í mjölturni verksmiðjunnar. Fólk var að störfum er hans varð vart en engan sakaði.

Um stórt útkall var að ræða og voru slökkviliðsmenn frá Vopnafirði sem og björgunarsveit boðuð á vettvang. Þá voru slökkvilið Langanesbyggðar og Brunavarnir á Héraði einnig kvödd á staðinn. Fljótt tókst að ná tökum á eldinum og var því hluta viðbragðsaðila snúið við.

Eldurinn er mjög staðbundinn og inni í rörinu. Samkvæmt upplýsingum mbl.is er enn verið að drepa í síðustu glæðunum nú kl. 10.20. Um er að ræða afsogsrör af fiskimjölsþurrkara. Verið var að rafsjóða við rörið er eldurinn kom upp. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert