Margir við kveðjumessu Hjálmars

Sr. Hjálmar ræðir við kirkjugesti við lok messunnar í dag.
Sr. Hjálmar ræðir við kirkjugesti við lok messunnar í dag. mbl.is/Ófeigur

Þétt var setið á bekkjum Dómkirkjunnar í Reykjavík í dag þegar kveðjumessa sr. Hjálmars Jónssonar dómkirkjuprests fór þar fram. Hjálmar hefur þjónað við Dómkirkjuna í rúmlega sextán ár eða frá árinu 2001.

Þó að Hjálmar sé að ljúka störfum vegna aldurs mun hann verða til þjónustu áfram í Dómkirkjunni á meðan verið er að ganga frá skipan nýs prests.

Að því loknu útilokar Hjálmar ekki að gerast afleysingaprestur ef kirkjan kallar eftir kröftum hans.

Við kveðjumessuna söng Dómkórinn og organisti var Kári Þormar. Karlakór Reykjavíkur undir stjórn Friðriks S. Kristinssonar söng og einsöngvari með kórnum var Árni Geir Sigurbjörnsson.

Þá sungu Ragnhildur Gísladóttir og Margrét Hannesdóttir einsöng, en með Dómkórnum og organistanum spiluðu þær Herdís Ágústa Linnet og Ingibjörg Ragnheiður Linnet á trompet.

Að messu lokinni voru veitingar í boði í Safnaðarheimili Dómkirkjunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert