„Þetta var mjög góð tilfinning“

Katarina Kekic útskrifaðist með meðaleinkunnina 9,23.
Katarina Kekic útskrifaðist með meðaleinkunnina 9,23. ljósmynd/Aðsend

„Ég vissi alveg að ég væri með góða einkunn en bjóst ekki alveg við því að vera hæst,“ segir Katarina Kekic, dúx Verzlunarskóla Íslands, í samtali við mbl.is, en hún útskrifaðist í gær með meðaleinkunnina 9,23. „Þetta var mjög góð tilfinning,“ bætir hún við.

Katarina segir gott skipulag, góða mætingu og einbeitingu í tíma skipta höfuðmáli fyrir góðan námsárangur. „Svo finnst mér Verzló frábær skóli. Það er frábært kerfi þarna, frábærir kennarar og áfangarnir góðir og vel skipulagðir svo það hjálpaði líka helling,“ segir hún.

Talar serbnesku heima

Foreldrar Katarinu eru bæði serbnesk en faðir hennar er Sinisa Valdimar Kekic og móðir hennar Radina Íris Bogicvic. Þau fluttu hingað til lands þegar Katarina var ungbarn, og hefur hún því alltaf talað íslensku en alist upp með serbnesku sem sitt móðurmál. „Ég hef alist upp á serbnesku heimili og tala alltaf serbnesku við mömmu og pabba,“ segir hún.

Spurð um það hvort henni hafi alltaf gengið vel í skóla segir Katarina að það megi segja það. „Mér gekk að minnsta kosti vel í grunnskóla og núna í Verzló,“ segir hún.

Kom á óvart þegar nafnið var lesið upp

Katarina segir það hafa komið sér töluvert á óvart í útskriftarathöfn skólans í gær þegar nafnið hennar var lesið upp. „Ég var ekki látin vita fyrir fram svo ég hafði ekki hugmynd,“ segir hún og hlær. „Ég bjóst alveg við því að einhver annar væri með hærri einkunn en ég.“

Við athöfnina hlaut hún 500 þúsund krónur í verðlaun úr aldarafmælissjóði Verzlunarskólans sem var stofnaður árið 2005 þegar skólinn varð 100 ára. Spurð um það hvort peningurinn muni nýtast í áframhaldandi nám segir Katarina það vel koma til greina. „Það væri auðvitað mjög gott að geyma þennan pening þar til ég fer í skóla aftur.“

Katarina er alsæl með gærdaginn, en eftir útskriftina hélt hún útskriftarveislu. „Það var mjög gaman í gær,“ segir hún en játar að nú taki við hvíld eftir törn síðustu vikna.

Viðskipti og verkfræði heilla

En hvað tekur við næst? „Ég ætla alla vega að taka mér árspásu frá námi og vinna, og fara svo í háskóla eftir það. Ég er ekki alveg búin að ákveða hvað ég vil læra,“ segir Katarina, en hún útskrifaðist af viðskiptafræðibraut. „Ég held að ein af aðalástæðunum fyrir því að mér gekk svona vel er að ég hafði svo mikinn áhuga á því sem ég var að læra og mér fannst áfangarnir mjög skemmtilegir sem ég tók,“ segir hún.

Nefnir hún bókfærslu, fjármál og rekstrarhagfræði sem áfanga sem henni þóttu mjög skemmtilegir. Katarina kveðst þó alveg eins geta hugsað sér að fara í verkfræði, en hún muni taka árið í að ákveða hver næstu skref verða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert