Í 2. sæti á móti í Blackpool

Pétur Gunnarsson og Polina Oddr eftir keppnina í Blackpool.
Pétur Gunnarsson og Polina Oddr eftir keppnina í Blackpool. Mynd/aðsend

Pétur Gunnarsson og Polina Oddr lentu í 2. sæti á The British Open í U21 í latín-dönsum sem haldið var í Blackpool og lauk í nótt en alls voru 230 pör skráð í keppnina og er þetta besti árangur Íslendinga í þeirra aldurshópi í keppninni hingað til.

Pétur sem er 19 ára og Polina sem er 17 ára hafa dansað saman í 2 ár og voru meðal annars heimsmeistarar í U21 í fyrra, sem og Íslandsmeistarar í fullorðinsflokki árið 2017. Hafa þau náð góðum árangri bæði í flokki ungmenna og fullorðinna hér heima og erlendis.

Samkvæmt Bergljótu Pétursdóttur, móður Péturs, munu þau verja sumrinu við æfingar í Úkraínu en Polina kemur þaðan. Markmiðið er svo sett á að taka þátt í International Championship í Royal Albert Hall í haust auk þess sem þau verja titilinn á heimsmeistaramótinu í París í desember.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert