Markatöngin leysir málið

Frá vinstri: Lilja Diljá Ómarsdóttir, Þóra Emilía Ólafsdóttir, Indriði Ægir …
Frá vinstri: Lilja Diljá Ómarsdóttir, Þóra Emilía Ólafsdóttir, Indriði Ægir Þórarinsson og Óskar Aron Stefánsson.

Fjórir nemendur í Varmahlíðarskóla í Skagafirði unnu til verðlauna í nýafstaðinni nýsköpunarkeppni grunnskólanna (NKG) 2017, en á undanförnum átta árum hafa níu nemendur skólans hlotið verðlaun í keppninni.

NKG er keppni í nýsköpun fyrir 5.-7. bekk grunnskólanna. Hún fór fyrst fram 1991 og var nú haldin í 27. sinn. 25 hugmyndir, sem 34 nemendur unnu að, voru valdar í úrslit af yfir 1.100 hugmyndum frá 34 skólum víðs vegar að af landinu. Þórdís Sævarsdóttir í Dalskóla hlaut hvatningarverðlaun NKG „fyrir framúrskarandi framlag sitt til eflingar nýsköpunarmenntunar á Íslandi“ og er því Nýsköpunarkennari grunnskólanna 2017.

Indriði Ægir Þórarinsson og Óskar Aron Stefánsson í 7. bekk Varmahlíðarskóla hlutu 1. verðlaun fyrir einfalda markatöng en lyklaklemma þeirra komst einnig í úrslit. Lilja Diljá Ómarsdóttir og Þóra Emilía Ólafsdóttir úr 6. bekk urðu í 2. sæti með barnabjargara og fengu tæknibikar Pauls Jóhannssonar fyrir hugmyndina og framúrskarandi sköpunargáfu og eljusemi í vinnusmiðjunni. Lilja Diljá komst líka í úrslit í fyrra.

Þetta er þriðja árið í röð sem Óskar Aron kemst í úrslit. Hann lenti fyrst í 5. sæti með hárlosunarhárbursta og síðan urðu þeir Indriði Ægir í 3. sæti í fyrra með markaappið.

Félagarnir búa í Lýtingsstaðahreppi; Óskar í Álfheimum og Indriði á Stórhóli. Þeir þekkja því vel til sveitastarfa og finna hvar skórinn kreppir. Það er því ekki tilviljun að verðlaunahugmyndir þeirra hafa með búskap að gera.

Hugmyndaríkir krakkar

Óskar segir að hugmyndirnar verði til með því að finna vandamál sem þurfi að leysa og í kjölfarið sé lausnarleiðin fundin. Indriði bætir við að hann hafi fengið hugmyndina að markatönginni frá Sverri, bróður sínum. „Ég spurði hann hvort það væru einhver vandamál í kringum kindurnar og hann sagði að sér fyndist leiðinlegt að marka sum mörk og sérstaklega markið fjöður.“

Strákarnir segja að þeir hafi ekki átt von á sigri í keppninni og það hafi óneitanlega verið gaman að fá 1. verðlaun, tölvu og gjafabréf. Þeir segja að næst á dagskrá sé að forrita appið, sem var verðlaunað í fyrra, og svo vilja þeir láta á það reyna hvort markaður sé fyrir framleiðslu á markatönginni. Þeir unnu hvataferð til Vestmannaeyja og hafa í hyggju að nota hana til þess að prófa mismunandi hnífa á töngina.

Stelpurnar voru ekki síður ánægðar með uppskeruna, en barnabjargarinn virkar þannig að sé takka á handfangi barnavagns sleppt stoppar vagninn. „Ég átti alls ekki von á þessu,“ segir Lilja Diljá. Hún segir að þær hafi verið í skólanum og hugsað hvað þær gætu gert. „Svo datt okkur þetta í hug og við áttum alls ekki von á því að við kæmumst áfram því þetta var eiginlega bara grínhugmynd.“

Þóra Emilía tekur í sama streng. „Ég var mjög ánægð,“ segir hún um viðbrögðin við verðlaununum og bætir við að framkvæmd hugmyndarinnar hafi ekki vafist fyrir þeim. „Hún var svolítið erfið en ekki neitt svakalega.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert