Sænskt teknó í stofu og trúnó í eldhúsi

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna. Notaðist við partí-myndlíkingu í ræðu …
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna. Notaðist við partí-myndlíkingu í ræðu sinni. Eftirpartíið er súrt að hennar mati. mbl.is/Golli

Umræðan um fjármálaáætlun næstu fimm ára er eins partí „þar sem reykingamennirnir norpa heldur súrir úti á svölum, einhverjir eru að dansa við sænskt teknó í stofunni og enn aðrir eru á trúnó inni í eldhúsi.“ En fyrst og fremst varpar fjármálaáætlunin ljósi á þá miklu hægri stefnu sem ríkisstjórnin boðar.

Þetta sagði Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, í ræðu sinni á eldhúsdagsumræðum sem fara nú fram á Alþingi. Hún benti á að einn formaður segði fjármálaáætlunina aðeins lærdómsferli frekar en niðurstöðu, annar segði henni ekki breytt, nema þeim málum sem hann er ósammála, á meðan sá þriðji segði áætluninni alls ekki verða breytt. Það væri því lítil samstaða innan ríkisstjórnarinnar um þetta mikilvæga mál.

 „Og það má henda gaman að því að enginn er sammála í ríkisstjórninni. Og verum sanngjörn; það er ekki eins og þeir sjö flokkar sem nú skipa Alþingi Íslendinga séu endilega sammála um allt. En kannski er það einmitt vegna stóru átakalínanna sem eru að verða æ skýrari í íslenskum stjórnmálum og birtast svo ljóslega í fjármálaáætluninni. Því þó að deilt sé um fjármálaáætlunina í partýinu þá virðast gestirnir sammála um eitt: þá miklu hægristefnu sem hún boðar.“

Dregið úr þjónustu án sýnilegra markmiða

Katrín benti á að fjármálaáætlunin væri römmuð inn í strangar fjármálareglur sem eiga rætur að rekja til nýfrjálshyggjunnar, þar sem áhersla er lögð á lækkandi hlutfall samneyslunnar. Á mannamáli þýðir þetta, að mati Katrínar „að draga úr þjónustu við almenning án sýnlegra markmiða eða ávinnings fyrir okkur sem myndum samfélagið hér á Íslandi.“

Hún sagði Þingmenn og ráðherra meirihlutans tala um að fleiri krónur rynnu til ýmissa málaflokka en þegar hlutfall samneyslunnar af vergri landsframleiðslu væri skoðað gerði áætlunin ráð fyrir að hún drægist saman. „Hún er fjarri því að mæta þeim væntingum sem gefnar voru fyrir síðustu kosningar. Og það kemur ekki á óvart þar sem áætlunin boðar enn frekari skattalækkanir ofan á allar þær aðgerðir sem síðasta ríkisstjórn réðst í til að veikja tekjustofna ríkisins. Þetta er allt í anda sömu frjálshyggjukredduhugsunarinnar sem ber mikla ábyrgð á vaxandi ójöfnuði.“

Partí-myndlíkingin var gegn um gangandi í ræðu Katrínar. Líka þegar hún rifjaði upp myndun núverandi ríkisstjórnar og brösóttan aðdragandann.

„Þetta var eins og kvöld á barnum þar sem menn hafa kannski vakað heldur lengi í von um enn meiri skemmtun seinna. En svo fóru ríkisstjórnarflokkarnir saman heim í eftirpartý sem hefur verið í ætt við önnur slík. Þegar partýið loksins hefst hefur þreytan náð yfirhöndinni, enginn man lengur væntingarnar frá fyrr í kvöld, fólk syngur kannski þreytulega en ekki í takti, sumir eru svolítið fúlir með að hafa lent í þessu partýi en ekki einhverju öðru. Og húsráðandinn er ekki einu sinni heima.“

Eftirpartýin eru þreytt í upphafi

Katrín kallaði eftir endurskipulagningu skattkerfisins frá grunni. „Á Íslandi eru það ríkustu tíu prósentin sem eiga þrjá fjórðu alls auðs. Kannski vill einhver hafa það þannig – ríkisstjórnin kannski?“ spurði hún. Þá sagði hún mikilvægt að endurreisa velferðarkerfið, að fólkið í landinu vildi félagslega rekið heilbrigðiskerfi og vel fjármagnað.

Katrín talaði einni um mikilvægi þess að efla menntakerfið. „Við eigum að fjölga nemendum en ekki að fækka þeim eins og stefna ríkisstjórnarinnar gerir ráð fyrir en hún er því miður algjörlega metnaðarlaus, nánast eins og menntamálin hafi gleymst á leiðinni í eftirpartýið.“

Þá sagði hún algjörlega óviðunandi að á þessum tímum, þar sem fátt væri talað um annað, en efnahagslegan uppgang, að stórir hópar sætu eftir eftir, langt undir viðmiðum um framfærslu.

„Eftirpartýin eru þreytt þegar þau hefjast. Þetta sem nú stendur yfir hófst mæðulega og mun ekki batna. Aðallega vegna þess að sameiningarþátturinn – límið sem heldur ríkisstjórninni saman – er sú hugmynd að árangurinn verði einungis mældur í því ef samneyslan minnkar og minnkar og minnkar.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert