Snældurnar tækifæri en ekki ógn

Snældur hafa notið mikilla vinsælda undanfarnar vikur.
Snældur hafa notið mikilla vinsælda undanfarnar vikur. AFP

Þegar skólar banna hluti sem börn og unglingar hafa áhuga á verður til gjá á milli nemenda og skólans en nærtækara væri að nota áhugann til kennslu. Kennarar virðast líta á snældur (e. fidget spinners“ sem ógn, en í raun er þetta tækifæri. „Þetta er tæki sem þau hafa áhuga á , tengdu það við námsefnið.“ Þetta segir Ingvi Hrannar Ómarsson, sem starfar við skólaþróun og upplýsingatækni hjá sveitarfélaginu Skagafirði, en hann skrifaði í gær póst á Facebook þar sem hann kom með 10 hugmyndir um hvernig kennarar gætu nýtt snældur við kennslu.

Ingvi segir að auðvitað sé staður og stund fyrir ákveðna hluti og kennslustundir eigi ekki að snúast um að snúa snældum í öllum tímum alltaf. „En það er vissulega hægt að nota þær og sleppa því að banna þær,“ segir hann.

„Við þurfum að grípa tækifærin þegar þau gefast,“ segir Ingvi og bætir við að það sé ekki hægt að vera alveg fastur í bókinni öllum stundum. Kennarar þurfi að hafa svigrúm frá námskrá til að geta gripið umræðuefni og áhugamál krakka og setja það í samhengi við kennsluefnið.

Ingvi Hrannar Ómarsson segir að bönn skapi gjá milli skólans …
Ingvi Hrannar Ómarsson segir að bönn skapi gjá milli skólans og nemenda og í staðinn eigi að nýta áhuga nemendanna til kennslu sem tengsit áhugamálinu. Mynd/Ingvi Hrannar

Meðal þeirra dæma sem Ingvi lagði til í póstinum sínum var að mæla hversu lengi snældurnar snúast og setja upp graf og tölfræði um það. Þá væri hægt að  bera saman áhrif af þyngd á snúninginn, bera saman mismunandi gerðir og áhrif á snúning. Þá væri hægt að láta nemendur markaðssetja snældur, búa til auglýsingar og finna út hvað sé sanngjarnt verð eða rökræða hvort og þá af hverju ætti að banna eða leyfa snældur í skólum.

Í samtali við mbl.is segir Ingvi að eftir að hann setti þennan póst inn hafi fjölmargir haft samband eða sent inn fleiri hugmyndir. Þannig hafi meðal annars einn kennari nefnt að hann hafi beðið nemendur um að athuga hversu mörg orð þau gætu lesið á meðan snældan væri að snúast.

Snældan er að sögn Ingva ekki ólíkt fleiri tískufyrirbærum sem börn og unglingar hafa orðið hugfangin af undanfarin ár og áratugi. Þannig sé þetta ekki ólíkt körfuboltamyndum, poxi eða jójó-hjólum. Hann segist reyndar ekki hafa trú á því að vinsældir snældunnar muni endast mjög lengi, en að grípa eigi tækifærið meðan það gefist.

Snælda er nýjasta æði hjá krökkum hér á landi sem …
Snælda er nýjasta æði hjá krökkum hér á landi sem erlendis. Skiptar skoðanir eru meðal kennara hvort slík tæki eigi heima í skólum eða ekki. AFP

Leggur hann áherslu á að reynt sé að vinna með áhuga barnanna þannig að þau hafi bæði gagn og gaman af lærdóminum. Þá segir hann einnig mikilvægt fyrir kennara að deila reynslu sinni og hugmyndum um kennsluaðferðir, rúmlega 250 manns höfðu deilt færslu hans þegar þetta er skrifað.

Hugmyndir Ingva um hvernig nýta megi snældur við kennslu eru meðfylgjandi:

  1. Mæla hve lengi þær snúast að meðaltali og setja upp graf og tölfræði.
  2. Bera saman hvort þyngd hafi áhrif á snúning. Hver er besta þyngdin og af hverju?
  3. Bera saman úr hverju mismunandi „snældur“ eru gerðar og hvaða áhrif hvaða efni hefur og hvers vegna.
  4. Finna meðaltal á því hve lengi „snældur“ snúast.
  5. Mæla hve marga hringi ein snælda snýst á 10 sekúndum (taka upp í „slo-mo“ myndbandi á síma eða spjaldtölvu). Mæla í framhaldi ummál snældunnar og reikna hve langt hún myndi ferðast á einni mínútu ef hún væri upp á rönd (eins og dekk) og mæla km/klst í framhaldi fyrir eldri nemendur.
  6. Ræða með gagnrýnum hætti hvernig mannlegar gjörðir hafa áhrif á niðurstöður mælinga og rannsókna.
  7. Búa til sína eigin snældu í smíðum/hönnun t.d. með FabLab.
  8. Láta nemendur markaðssetja og auglýsa sína snældu eins og söluvöru. Búa til auglýsingu/heimasíðu. Hvað er sanngjarnt verð og hvernig/hvar er best að auglýsa? Hver er markhópurinn?
  9. Hafa rökræður um hvort, og af hverju, leyfa eigi „snældur“ í skólum.
  10. Ræða um „snældur“ út frá fyrsta lögmáli Newtons (tregðulögmálið) sem segir að sérhver hlutur haldi áfram að vera í kyrrstöðu, eða á jafnri hreyfingu eftir beinni línu, nema kraftar sem á hann verka þvingi hann til að breyta því ástandi.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert