Fleiri slasast alvarlega á bifhjóli

Slysum á bifhjólum hefur fjölgað.
Slysum á bifhjólum hefur fjölgað. mbl.is/Kristján Kristjánsson

Fjöldi slasaðra og látinna bifhjólamanna hefur aukist milli ára. Aukningin er 42% milli áranna 2015 og 2016. Árið 2016 voru það 47 en 33 árið áður.  Þetta er hins vegar undir meðaltali síðustu 10 ára sem er 62,6. Þetta kemur fram í skýrslu um slysatölur þungra bifhjóla sem Samgöngustofa vann og birti á kynningu fyrir bifhjólamenn fyrir skömmu. 

Árið 2016 létust 18 manns í umferðinni þar af tveir bifhjólamenn. Sama ár slasaðist 21 bifhjólamaður alvarlega. Árið áður lést einn bifhjólamaður og átta slösuðust alvarlega. 

Slysum á bifhjólamönnum fjölgar milli ára en þó er fjöldi þeirra sá næstlægsti sem sést hefur frá árinu 2005.

Fjöldi skráðra þungra bifhjóla hefur aukist jafnt og þétt síðustu ár.  Árið 2006 voru þau 4.342 talsins og tíu árum síðar, árið 2016, voru þau tæplega helmingi fleiri eða 8007 talsins. Hins vegar minnkar heildarfjöldi þeirra sem slasast alvarlega eða látast á þungum bifhjólum til samanburðar við aukinn fjölda skráðra þungra bifhjóla.

Á árunum 2007 - 2016 eykst fjöldi þungra bifhjóla um 27% og fjöldi látinna og alvarlega slasaðra minnkar um 4%. 

Rúmlega helmingur slysa á bifhjóli verða við fall af því.  Á árunum 2007-2016 urðu alls 626 slys þar af voru 372 vegna falls af bifhjóli. Hliðarákeyrslur voru 99 talsins, aftanákeyrslur voru 41 talsins og útaf akstur og bílveltur voru 63.

Af þeim 10.585 sem slösuðust í bifreið á árunum 2007 til 2016 voru 1.090 eða 10% sem slasaðist alvarlega eða lést. Af þeim 78 sem slösuðust á léttu bifhjóli voru 16 eða 21% sem slasaðist alvarlega eða lést. Af þeim 626 sem slösuðust á þungu bifhjóli voru 259 eða 41% sem slasaðist alvarlega eða lést. 

Flest slysin verða yfir sumarmánuðina eða frá júní til ágúst þegar margir ökumenn nýta góða veðrið og keyra á mótorhjólum sínum.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert