Ríkið mátti ekki skerða laun ljósmæðranna 

Dómstóllinn taldi ríkinu hafa borið að reikna ljósmæðrunum laun út …
Dómstóllinn taldi ríkinu hafa borið að reikna ljósmæðrunum laun út frá því hversu hátt hlutfall vinnuskyldu sinnar þær inntu af hendi á verkfallstímanum. mbl.is/Kristinn

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur komist að þeirri niðurstöðu að ríkinu hafi verið óheimilt að skerða laun fimm ljósmæðra, sem störfuðu á Landspítalanum á því tímabili sem verkfallsaðgerðir Ljósmæðrafélags Íslands stóðu yfir á árinu 2015, með þeim hætti sem gert var. Var ríkinu gert að greiða ljósmæðrunum andvirði hinnar ólögmætu skerðingar, auk  dráttarvaxta og málskostnaðar.

Í fréttatilkynningu frá BHM segir að héraðsdómur hafi talið aðferð ríkisins við að reikna út laun ljósmæðranna hvorki hafa staðist ákvæði kjarasamnings, né meginreglur vinnuréttar. Ríkinu hafi borið að reikna ljósmæðrunum laun út frá því hversu hátt hlutfall vinnuskyldu sinnar þær inntu af hendi á verkfallstímanum.

„Störfin hafa verið unnin, vinnutímarnir inntir af hendi og fyrir það á að greiða laun,“ segir í niðurstöðu dóms, sem féllst á þá kröfu ljósmæðranna að ríkið greiði þeim vangoldin laun, auk þess sem það þurfi að greiða hverri þeirra 250 þúsund krónur í málskostnað.

Máls­at­vik eru þau að í verk­falli ljós­mæðra árið 2015 var dregið af ljósmæðrum 60% af grunn­laun­um óháð vinnu­fram­lagi. Var þetta gert jafnvel þó að marg­ar ljós­mæður ættu ekki vinnuskyldu á verkfallsdögunum og hafi jafnvel náð að skila af sér fullri vinnu­skyldu. 

Hefur fordæmisgildi fyrir aðra sem sættu launaskerðingu

Haustið 2015 höfðaði Ljósmæðrafélag Íslands mál fyrir Félagsdómi gegn ríkinu vegna málsins og sýknaði dómurinn þá ríkið af kröfum félagsins. Í apríl í fyrra stefndu síðan fimm ljósmæður, með stuðningi BHM, íslenska ríkinu fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur vegna vangoldinna launa frá þeim tíma þegar verkfallsaðgerðir félagsins stóðu yfir.

Í tilkynningu BHM segir að ljóst megi vera að niðurstaða héraðsdóms hafi fordæmisgildi gagnvart öðrum ljósmæðrum sem sættu hliðstæðum launaskerðingum. Dómurinn muni ekki síður hafa fordæmisgildi gagnvart öðrum fagstéttum sem vinna vaktavinnu á Landspítala og sættu sambærilegri launaskerðingu.

Muni BHM og hlutaðeigandi stéttarfélög fylgja því fast eftir að þeir félagsmenn sem brotið hefur verið á fái hlut sinn leiðréttan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert