Tíndu þrjú tonn af rusli á Hornströndum

Vaskur 30 manna hópur sjálfboðaliða.
Vaskur 30 manna hópur sjálfboðaliða. Ljósmynd/Gauti Geirsson

Alls söfnuðust þrjú tonn af rusli, að stærstum hluta plast, þegar 30 manna hópur hreinsaði friðland Hornstranda um liðna helgi. Hópurinn hreinsaði strendur Aðalvíkur. Þetta er fjórða árið í röð sem sjálfboðaliðar grunnhreinsa strandlengju friðlandsins en á hverju ári er nýtt svæði tekið fyrir.

Gauti Geirsson stendur á bak við hreinsunarstarfið. Hann ákvað að fá fólk til liðs við sig og tína rusl úr friðlandinu þegar hann frétti af ljósmyndasýningu fransks ljósmyndara af rusli á Hornströndum. Upphaflega ætlaði ljósmyndarinn að festa náttúrufegurð Hornstranda á filmu en ruslið á svæðinu stakk í augun og úr varð að hann myndaði ruslið í fjörunni í staðinn. 

„Ég hugsaði með mér að þetta gengi ekki lengur. Ég smalaði saman fólki og fékk Ísafjarðarbæ og fleiri aðila til samstarfs með það að markmiði að fara einu sinni á hverju ári með stóran hóp sem gæti gert mikið á stuttum tíma,“ segir Gauti skipuleggjandi hreinsunarstarfsins.  

Net voru dregin úr sjónum í Aðalvík.
Net voru dregin úr sjónum í Aðalvík.

Færri komast að en vilja

„Það hafa alltaf fleiri vilja komast með í ferðina en geta. Það er gaman að finna áhuga hjá fólki að taka þátt í hreinsunarstarfinu,“ segir Gauti. Í hópnum erum meðal annars heimamenn og háskólanemar í námi í haf- og strandveiðistjórnun.

Hann segir gaman að sjá samtakamáttinn hjá fólki að vilja hreinsa náttúruna. „Vonandi er þetta framtak innblástur fyrir aðra að hóa sig saman og tína rusl í nánasta umhverfi. Þetta er lítið mál og allstaðar þar sem maður fer mætir maður miklum velvilja,“ segir Gauti.   

Það er ekki hlaupið að því að komast á þetta landsvæði, upphaflega átti að hreinsa Bolungavík á Ströndum en það breyttist þar sem ekki var hægt að lenda þar en í staðinn var farið í Aðalvík sem er lokaðri fyrir Norðaustanáttinni. Landhelgisgæslan er einn af aðalstyrktaraðilunum en hún hefur útvegað varðskipið Þór til að hirða ruslið sem var safnað saman í saltpoka. „Við gætum þetta ekki án þeirra og allra þeirra sem styrkja verkefnið.“

Vænn hagur af rusli sem var safnað.
Vænn hagur af rusli sem var safnað.

Allir geta tekið sig á neyslunni

Alla jafna rekur mikið að landi á Hornstrandir. Umgengni sjómanna við Ísland er almennt góð en hluti af því er rusli  sem berst á strandirnar fýkur af landi, að sögn Gauta. Hann segir ruslið sem fylgir manninum mikið. „Ég held að við getum staðið okkur mun betur í að hugsa um náttúruna og hver og einn geti litið í eigin barm varðandi neyslumunstur og umgengni,“ segir Gauti.

Allir að tína rusl.
Allir að tína rusl.

Styrktaraðilarnir eru: Landhelgisgæsla Íslands, Ísafjarðarbær, Umhverfisstofnun, Vesturferðir, Borea Adventures, Vesturverk, Aurora Arktika, Sjóferðir Hafsteins og Kiddýjar, Skeljungur og Gámaþjónusta Vestfjarða.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert