Fyrsta íslenska útvarpið í mynd

Útsendingar útvarpsstöðvarinnar K100 á vefnum og í sjónvarpi voru kynntar …
Útsendingar útvarpsstöðvarinnar K100 á vefnum og í sjónvarpi voru kynntar á fundi starfsmanna Árvakurs í gær ásamt fleiri nýjungum. mbl.is/Hanna

Útvarpsstöðin K100, sem er í eigu Árvakurs sem á og rekur meðal annars Morgunblaðið og mbl.is, hóf í morgun útsendingu á vefnum og í sjónvarpi. K100 er fyrsta útvarpsstöðin hér á landi sem sendir út dagskrá sína samtímis í útvarpi, sjónvarpi og á vefnum.

Áfram er hægt að hlusta á stöðina á útvarpstíðninni FM100,5 en nú er einnig hægt að nálgast útsendinguna í tölvum og snjallsímum á k100.is og á mbl.is. Að auki er K100 í beinni útsendingu á stöð 30 í sjónvarpi Símans.

Hægt er að fylgjast með útsendingu K100 í beinni hér.

Tónlistarmyndbönd eru sýnd samhliða þeirri tónlist sem leikin er, auk þess sem hægt er að sjá viðtöl og annað dagskrárefni í beinni á milli laga. Útsendingakerfið er sérstaklega sniðið fyrir K100 og er algjörlega sjálfvirkt.

Í samvinnu við ritstjórn mbl.is og Morgunblaðsins eru nú fréttir fluttar á klukkutíma fresti á K100 alla virka daga, frá klukkan sjö á morgnana til sex síðdegis.

Nýr síðdegisþáttur hefur göngu sína

Nýr síðdegisþáttur þeirra Huldu Bjarnadóttur og Sighvats Jónssonar, sem hlotið hefur nafnið Magasínið, fer í loftið síðdegis. „Þátturinn er fyrir fólk sem hefur skoðanir og vill fylgjast með en ekki síður fyrir fólk sem þorir að vera áfram ungt í anda og taka sig ekki of alvarlega. Það er létt yfir stöðinni og þannig verður þátturinn einnig uppbyggður,“ segir Hulda.

„Það eru spennandi tímar í fjölmiðlum í dag þar sem þróunin er ör,“ segir Magnús E. Kristjánsson, útvarpsstjóri K100. „Sérstaða K100 er að um er að ræða fyrstu útvarpsstöðina á Íslandi sem verður „útvarp í mynd“. Slíkt býður upp á gagnvirkari tengsl við hlustendur og áhorfendur en áður hefur þekkst í íslenskum fjölmiðlum.“

Auðun Georg Ólafsson, Sigríður Elva Vilhjálmsdóttir og Hulda Bjarnadóttir í …
Auðun Georg Ólafsson, Sigríður Elva Vilhjálmsdóttir og Hulda Bjarnadóttir í stúdíói að undirbúa útsendingu. mbl.is/Golli


Nálgast fólk með fjölbreyttari hætti

Haraldur Johannessen, ritstjóri Morgunblaðsins og framkvæmdastjóri Árvakurs, segir að þessi misserin eigi sér stað mikil umbylting í fjölmiðlaheiminum, ekki síst hér á landi. „Við sjáum fjölmiðla í miklum vanda víða, rótgróna miðla falla og fjölmiðlasamsteypur liðast í sundur. Árvakur hefur tekið þá afstöðu að til að þrífast og dafna í því breytta umhverfi sem fjölmiðlar búa við þurfi að nálgast fólk með fjölbreyttari hætti en áður. Það þurfi að sækja fram á nýjum sviðum fjölmiðlunar en líka að sækja fram með nýjum hætti. Þess vegna réðst Árvakur í það fyrir nokkrum mánuðum að hefja útvarpsrekstur með kaupum á stöðvunum K100 og Retró. Í dag kynnum við fyrstu verulegu breytingarnar á þeim rekstri og í raun byltingu í útvarpi hér á landi þegar við setjum í loftið útvarp í mynd. Hér eftir mun fólk ekki aðeins geta hlustað á K100 í hefðbundnu útvarpi heldur getur það einnig horft á það á mbl.is og í Sjónvarpi Símans.

Við erum líka byrjuð með fréttir í útvarpi sem byggjast á þeirri öflugu ritstjórn sem er á mbl.is og Morgunblaðinu. Með þeim ná fréttir okkar nýjum hópi, til dæmis fólki sem er á ferðinni, sem fær snarpar og áreiðanlegar fréttir á heila tímanum.“

Hljóðmogginn fyrir áskrifendur

„Önnur nýjung sem við erum að bjóða fólki á ferðinni er það sem við köllum Hljóðmoggann, sem er upplestur á helsta efni Morgunblaðsins dag hvern. Þetta er ætlað áskrifendum blaðsins sem vilja nota tímann á leið í vinnu, í ræktinni á morgnana eða við aðrar aðstæður þar sem ekki er hægt að setjast niður og lesa blað.

Með þessum nýjungum viljum við nýta tæknina til að bjóða þjónustu okkar á þann hátt að fólk eigi greiðan aðgang að henni við hvaða aðstæður sem er, hvort sem er í annríki dagsins eða þegar tóm gefst til að setjast niður og njóta lestrar. Við teljum að þetta sé það sem fólk í dag kallar eftir í fjölbreyttari og flóknari heimi og erum mjög spennt yfir því að geta mætt þessari þörf.“ 44, 46, 47, 50, 84.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert